Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20217
Krafa er lögvarin heimild kröfuhafa til að krefjast greiðslu úr hendi skuldara. Kröfur geta stofnast með ýmsum hætti. Þær stofnast helst með samningum, athöfn eða athafnaleysi sem veldur bótaskyldu tjóni eða á grundvelli lagasjónarmiða um ólögmæta auðgun. Kröfuréttindi eru oftast bráðabirgðaréttindi í þeim skilningi að þeim er sjaldan ætlað að lifa lengi. Allar kröfur hafa það markmið að greiðsla samkvæmt efni eða andlagi kröfunnar fari fram. Þegar fullar efndir hafa farið fram er hlutverki kröfu lokið og hún liðin undir lok. Lok kröfuréttinda geta orðið með öðrum hætti en efndum. Ýmist með því að kröfuhafi fái alla eða einhverja þá fjárhagslegu hagsmuni sem um er að ræða eða að lok réttindanna verði án þess að hann fái nokkra fullnustu kröfunnar. Um það fyrrnefnda má nefna skuldajöfnuð, en það er kallað skuldajöfnuður þegar kröfur jafnast og ganga upp á móti annarri án þess að raunveruleg greiðsla fari fram. Verður niðurstaðan því eins og báðar kröfurnar hefðu verið greiddar. Um það síðarnefnda má nefna vanlýsingu, eftirgjöf eða fyrningu, en reglur þar að lútandi mæla fyrir um áhrif aðgerðarleysis.Í ritgerð þessari er meginviðfangsefnið að fjalla um hvernig komið verður í veg fyrir að krafa falli niður fyrir fyrningu með því að slíta henni með ákveðinni háttsemi af hendi skuldara eða aðgerðum kröfuhafa, á grundvelli laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Ekki verður hjá því komist að fjalla einnig í stuttu máli um önnur ákvæði fyrningarlaga og forsögu laganna. Efnistök eru þau að í öðrum kafla ritgerðarinnar er fjallað almennt um fyrningu sem felst í skýringu á hugtakinu. Gerð er grein fyrir fyrningu sem réttarreglu sem mælir fyrir um áhrif aðgerðarleysis og hvaða hugsun búi að baki þeim reglum. Einnig er í kaflanum sagt í stuttu máli frá forsögu fyrningar, en hún á sér langa sögu. Í þriðja kafla segir frá þeim réttarheimildum sem gilda um fyrningu kröfuréttinda. Aðalákvæðin um fyrningu eru í gildandi lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, en í sérlögum má einnig finna ákvæði um fyrningu tiltekinna kröfuréttinda. Farið er yfir gildissvið gildandi fyrningarlaga og helstu nýmæli þeirra rakin í lok kaflans. Í fjórða kafla er fjallað um uppbyggingu fyrningarlaga nr. 150/2007 og upphafsákvæði þeirra laga rakin. Þar má fyrst nefna ákvæði um fyrningarfrest, en hann samanstendur í grundvallaratriðum af tveimur þáttum, sem eru lengd og upphaf fyrningarfrests. Í fimmta kafla er fjallað um slit á fyrningu og er hann lengsti kafli ritgerðarinnar, enda hefur hann að geyma aðalefni hennar. Fyrst er fjallað almennt um slit á fyrningu, en bæði háttsemi skuldara og aðgerðir kröfuhafa geta orðið til þess að slit verði á fyrningu. Því næst eru taldar upp þær reglur sem eiga við. Reglur um slit fyrningar gegna mikilvægu hlutverki því með þeim fær kröfuhafi lengri tíma til að fá efndir á útistandandi skuldum. Þær hvetja einnig kröfuhafa til að hefjast handa við innheimtu kröfu sinnar og við þær aðstæður getur skuldari ekki haldið því fram að skuldbindingar sínar séu við það að falla niður vegna aðgerðarleysis kröfuhafa. Í lok kaflans er farið er yfir þau réttaráhrif sem slit á fyrningu hafa í för með sér. Þessi áhrif eru eftirsóknarverð fyrir kröfuhafa, þar sem þau verða til þess að krafan öðlast lengra líf, ef rétt er að staðið, sem hefur í för með sér að kröfuhafi hefur enn tíma til að krefjast efnda. Í sjötta kafla er gerð grein fyrir áhrifum fyrningar á kröfuréttindi, bæði samkvæmt meginreglunni sem er að kröfuhafi glatar rétti sínum til að krefjast efnda á kröfunni, og áhrifin að öðru leyti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
RagnhildurAnnaGunnarsdóttir.pdf | 1.18 MB | Lokaður til...01.01.2100 | Heildartexti |