is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20230

Titill: 
  • Ólögmætt brottnám barna á grundvelli Haagsamningsins, sbr. lög nr. 160/1995. Er tekið tillit til vilja barna í brottnámsmálum?
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hagsmunum barna getur verið stefnt í hættu þegar foreldrar bera ekki gæfu til að taka í sátt og samlyndi ákvarðanir um börn sín, enda þótt þau séu sjálf skilin að skiptum. Í slíkum tilvikum getur staða barna sem eiga foreldra af mismunandi þjóðerni verið einstaklega erfið. Um leið og millilandasamskipti færast í aukana, fjölgar hjónaböndum og samböndum fólks af ólíkum þjóðernum og í kjölfar þeirra hjónaskilnuðum og sundruðum fjölskyldum. Í deilum milli foreldra getur og hefur komið upp sú staða að barn er tekið af öðru foreldrinu og flutt frá því landi sem það var búsett í og haldið í öðru ríki. Slík háttsemi telst vera ólögmæt ef hún brýtur í bága við rétt forsjáraðila eða annars aðila til að annast barnið samkvæmt lögum þess ríkis, þar sem barnið var búsett áður en það var flutt á brott eða hald hófst. Málum vegna ólögmæts brottnáms barna hefur því miður fjölgað síðustu áratugi. Það að barn sé tekið úr sínu hefðbundna umhverfi, þar sem það hefur alist upp, gengið í skóla og verið umkringt fjölskyldu sinni og vinum getur haft veruleg áhrif á skammtíma- og langtímalíðan barnsins.
    Áður fyrr var því haldið fram að feður stæðu oftar en ekki að baki ólögmætu brottnámi vegna ósættis um litla umgengni við barnið eftir skilnað við barnsmóður. Nýrri rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að mæðurnar eru yfirleitt þær sem nema börnin á brott, en það kann að koma mörgum á óvart. Það gerist oft á tíðum vegna þess að móðirin hefur flutt til heimalands maka síns, snýst síðar hugur og vill snúa aftur til síns heima. Kunna þættir eins og jafnari staða kynjanna og breytt viðhorf gagnvart foreldrahlutverkinu hins vegar einnig að skipta hér sköpum. Áður fyrr voru mæður oftar en ekki heima með börnin og sáu meira og minna um uppeldið á meðan feður unnu úti og létu sig uppeldi barnanna minna varða. Í seinni tíð hefur orðið mikill viðsnúningur í þessum efnum og virðast feður taka mun virkari þátt í uppeldi barna sinna. Þetta gerir það að verkum að þegar foreldrar skilja eða hætta saman er í auknum mæli sameiginleg forsjá með börnunum, þar sem báðir foreldrar vilja halda áfram að taka virkan þátt í lífi barna sinna. Foreldrar sem eru með sameiginlega forsjá er óheimilt á Íslandi að fara með barnið úr landi án samþykkis frá hinu foreldrinu og sama gildir víða annars staðar. Ef móðir nemur því barn sitt á brott og fer með það úr landi án samþykki föður er það talið ólögmætt.
    Samstaða hefur náðst á alþjóðavettvangi um nauðsyn þess að grípa til ráðstafana til verndar börnum í þessum aðstæðum. Tveir alþjóðasamningar hafa sprottið af þessari alþjóðlegu samvinnu, Evrópusamningur frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna og Haagsamningur frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. Evrópusamningurinn fjallar um forsjá, búsetu- og umgengnisákvarðanir, sem teknar eru í ríki sem er aðili að Evrópusamningnum, eða rétt sem leiðir beint af lögum sem leitað er fullnustu á. Haagsamningurinn stuðlar hins vegar að því að barni sem haldið hefur verið eða numið brott á ólögmætan hátt, sé sem fyrst skilað aftur. Markmiðið með samningnum er að vernda börn gegn því að þau verði numin brott úr sínu venjulega umhverfi. Með gildistöku laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. var Íslandi gert kleift að fullgilda áðurnefnda alþjóðasamninga og voru reglur þeirra þar með leiddar inn í íslenskan rétt.
    Í þessari ritgerð verður ólögmætt brottnám barna á grundvelli Haagsamningsins gert að meginviðfangsefni, þar sem hann stuðlar að því að fá börnum sem hafa verið numin á brott á ólögmætan hátt skilað sem fyrst á meðan Evrópusamningurinn stuðlar frekar að því að fallnir forsjárúrskurðir séu fullnustaðir. Í brottnámsmálum er það hlutverk dómara að ákveða hvort börnin sem numin voru á brott skuli send aftur til þess ríkis sem þau voru numin frá á ólögmætan hátt og þá til þess foreldris sem eftir situr. Þessi mál eru viðkvæms eðlis og það eru börnin sem þurfa að lifa með þeim dómi sem upp er kveðinn. Þykir því sérstaklega brýnt að skoða hvort hagsmunir barns séu hafðir að leiðarljósi þegar komist er að niðurstöðu í slíkum málum. Eitt meginatriði í því er að skoða hvort börn hafi kost á að tjá sig og hvort tekið sé tillit til vilja þeirra. Það verður því skoðað sérstaklega.

Samþykkt: 
  • 5.1.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20230


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Fanney MA-lokaskjal.pdf1,09 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
forsíða - Fanney1.pdf169,29 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna