is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20267

Titill: 
 • Siðferðileg álitamál í starfsumhverfi flugliða
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Markmið ritgerðarinnar er að rannsaka siðferðileg álitamál í starfsumhverfi flugliða á Íslandi og greina þau eftir þremur siðfræðikenningum: skyldusiðfræði, nytjastefnunni og dygðasiðfræði. Þá er hlutverk mannauðsstjórnunar skoðað með úrvinnslu úr þeim vandamálum í huga. Lagt var upp með að svara eftirfarandi spurningum: Eru álitamál, sem upp koma í starfsumhverfi flugliða, siðferðilega réttlætanleg? Ef svo er, hvaða lausnir hefur mannauðsstjórnun til að vinna úr þeim?
  Aðferðafræðin, sem var notuð til að svara þessum spurningum, var þríþætt: fræðileg samantekt úr siðfræði og mannauðsstjórnun, rannsókn á viðhorfi flugliða á Íslandi til starfsumhverfis síns og loks greining á niðurstöðum rannsóknarinnar og fyrri skrifa með hliðsjón af siðfræðikenningunum annars vegar og rannsóknum og skrifum í mannauðsstjórnun hins vegar. Rannsóknin í formi spurningalista var framkvæmd í samvinnu við Flugfreyjufélag Íslands og voru þátttakendur félagsmenn stéttarfélagsins. Meirihluti þátttakenda mat það svo að atvinnuöryggi í stéttinni væri lítið en vinnuálag og andlegt álag mikið. Þó er almennt mikil ánægja með að starfa sem flugliði og sáu þátttakendur starfið fyrir sér sem framtíðarstarf þó að skiptar skoðanir væru um yfirstjórn flugfélaganna og hvort þau bæru hag starfsfólks fyrir brjósti.
  Siðfræðileg greining leiddi í ljós að sum þeirra álitamála sem finnast í starfsumhverfi flugliða eru ekki siðferðilega réttlætanleg, miðað við þá nálgun sem tekin var í ritgerðinni. Mannauðsstjórnun getur haft áhrif á hvernig fólk upplifir starfsumhverfi sitt og hvernig það stendur sig og því er mikilvægt fyrir flugfélögin að vinna mannauðsstefnu sína með tilliti til starfsfólksins til að tryggja sem besta þjónustu fyrir viðskiptavini sína en rannsóknir hafa sýnt fram á beina tengingu milli þess að starfsfólk sé ánægt og bættrar þjónustu sem aftur eykur ánægju viðskiptavina.
  Rannsóknin sem slík var einföld og mætti auðveldlega útfæra hana til að henta öðrum starfsstéttum. Þessari nálgun hefur ekki verið beitt í svipuðum rannsóknum hér á landi og hefur hún þannig hagnýtt fræðilegt gildi og á sama tíma hagnýtt gildi fyrir flugliða og vinnuveitendur þeirra.

Samþykkt: 
 • 7.1.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20267


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hermann Hermannsson.pdf690.46 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Kápa Hermann.pdf161.98 kBOpinnKápaPDFSkoða/Opna