Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20272
Miklar breytingar hafa orðið á högum nýútskrifaðra háskólanema á síðustu árum en atvinnuleysi hefur aukist til muna. Á fyrstu árunum eftir efnahagshrunið, árið 2008, jókst aðsókn í háskóla landsins og er nú svo komið að margir þessara einstaklinga hafa lokið námi sínu. Sífellt erfiðara reynist að fá atvinnu sem tengist menntun nýútskrifaðra háskólanema en krafa um reynslu ásamt menntun er áberandi í þjóðfélaginu í dag. Háskólar landsins hafa valið að rækta tengsl sín við atvinnulífið á mjög mismunandi vegu og í mismiklu magni.
Í rannsókn þessari eru tengsl háskólanna við atvinnulífið skoðað út frá nemendunum sjálfum og rætt var við níu einstaklinga sem valið höfðu að fara í starfsnám samhliða háskólanámi. Allir höfðu einstaklingarnir ákveðið að fara þessa leið af sjálfsdáðum en menntastofnanir þeirra gerðu ekki kröfu um að þeir lykju starfsnámi til að fá háskólagráðu. Ásamt því að ræða við fyrrum starfsnema voru íslenskar, sem og erlendar rannsóknir og skýrslur um tengd efni skoðaðar og niðurstöður bornar saman.
Helstu niðurstöður leiddu í ljós að viðmælendur voru almennt mjög ánægðir með starfsnám sitt og töldu það hafa gefið sér þá reynslu og sjálfstraust sem nauðsynlegt er að hafa til að vera samkeppnishæfur einstaklingur á atvinnumarkaðinum á Íslandi í dag. Þá töldu viðmælendur að auka mætti vægi starfsnáms og tengja það betur við það háskólanám sem í boði er. Fer þetta mjög vel saman við fræðin sem skoðuð voru í tengslum við rannsóknina.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sandra Björg Stefánsdóttir.pdf | 642.01 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |