Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20291
Fyrirtækjamenning er ríkjandi þáttur í árangri og velgengni fyrirtækja ásamt því að vera mikilvægur hlekkur þegar kemur að starfsánægju. Fyrirtækjamenning táknar þær óskrifuðu reglur sem í gildi eru í fyrirtækjunum, sameiginleg markmið, gildi og skilningur starfsmanna.
Markmið rannsóknarinnar er skýra frá fyrirtækjamenningu IKEA á Íslandi og greina frá styrkleikum hennar og veikleikum. Samanburður er gerður út frá mismunandi hópum innan IKEA og einnig var skoðað hvernig starfsólk metur árangur og frammistöðu fyrirtækisins.
Rafrænn spurningarlisti, byggður á líkani Denison, var lagður fyrir starfsfólk IKEA. Alls tóku 104 starfsmenn þátt í rannsókninni og af þeim luku 79 starfsmenn við að svara öllum spurningum.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fyrirtækjamenning IKEA einkennist af skýrri og markvissri stefnu og að starfsfólk IKEA er meðvitað um tilgang og markmið fyrirtækisins. Stefnan er skýr í huga starfsfólks sem vinnur, ásamt stjórnendum, sameiginlega að settum markmiðum fyrirtækisins. Niðurstöður benda einnig til þess að starfsfólk IKEA vinni vel saman og að það eigi auðvelt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu við lausn á vandamálum. Starfsfólk tekur þátt í umræðum til að fá fleiri sjónarmið upp á yfirborðið.
Helsta veikleika fyrirtækjamenningarinnar má finna í viðskiptaumhverfi fyrirtækisins. Niðurstöður benda til þess að fyrirtækið á ekki auðvelt með að lesa í umhverfið sitt, það sér ekki breytingar fyrir og bregst því ekki nógu fljótt við breyttum aðstæðum. Enn fremur virðist fyrirtækið ekki vera meðvitað um þarfir og kröfur viðskiptavina sinna og er því ekki tilbúið til að taka áhættu með það fyrir augum að læra af mistökum sínum.
Veikleika má einnig finna í starfsþróun. Starfsfólk IKEA telur sig ekki vera að fá næga ábyrgð í starfi ásamt nægilega krefjandi verkefnum og telur það því möguleika sína til starfþróunar vera neikvæða.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ms_sandrakj.pdf | 2,4 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |