Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20381
Landsdómur er sérstakur dómstóll með það hlutverk að dæma í málum sem Alþingi höfðar gegn íslenskum ráðherrum fyrir embættisrekstur þeirra. Lög um Landsdóm voru fyrst sett árið 1905 en íslenskum ráðamönnum var mikið kappsmál að slík lög yrðu sett eftir að Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904. Á þessum tíma var Hæstiréttur Danmerkur æðsta dómsvald landsins en Hæstiréttur Íslands var stofnaður 1920. Landsdómi var í upphafi ætlað að tryggja íslenskum ráðherrum réttláta málsmeðferð, kæmi það til að þeir yrðu ákærðir, af mönnum sem væru kunnugir íslenskum málefnum og aðstæðum. Lög um Landsdóm gengu í gegnum róttækar breytingar árið 1963, og eru þau lög enn í gildi í dag. Þá höfðu lögin löngum sætt gagnrýni en þau þóttu bæði óskýr og að einhverju leyti úrelt. Pólitískt ívaf þeirra var einnig gagnrýnt og þóttu lögin illa til þess fallinn að geta skilað því réttlæti sem þeim var ætlað að gera. Með breytingu laganna 1963 fengu lögin meiri „fyllingu“ og þau voru skýrari en áður. Efasemdirnar minnkuðu hins vegar ekki og menn voru áfram þeirrar skoðunar að þessi sértæki, pólitíski dómstóll kæmi seint til með að tryggja réttlæti á hendur ráðherranna.
Umræður um Landsdóm voru lengi vel ekki fyrirferðamiklar, þó reglulega minntust menn á þennan möguleika. Árið 2011 fékk Landsdómur sitt fyrsta mál til umfjöllunar en þá var Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra landsins, fyrstur íslenskra ráðamanna ákærður af Alþingi fyrir brot á ráðherraábyrgðarlögum. Var honum gert að sök að hafa ekki haldið mikilvæga ríkisstjórnarfundi um mikilvæg stjórnarmálefni í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008. Dómur féll í apríl 2012 en Landsdómur sýknaði Geir af þremur af fjórum ákæruliðum en sakfelldi í einum. Hann var hins vegar ekki látinn sæta refsingu og sakarkostnaður féll á ríkissjóð. Skiptar skoðanir voru um réttmæti þess að draga fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdóm, og þá sérstaklega eins síns liðs. Geir kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem ákvað, í nóvember 2013, að taka málið fyrir. Málið í heild hefur ekki orðið til þess að minnka efasemdir um gagnsemi dómstólsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Saga Landsdóms..pdf | 736.18 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Kápa..pdf | 161.15 kB | Opinn | Kápa | Skoða/Opna |