Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2039
Margar rannsóknir og kannanir tengdar líðan nemenda í grunnskólum hafa verið gerðar á síðustu áratugum. Flestar þessara rannsókna hafa verið gerðar erlendis og hafa þær einna helst beinst að tengslum líðanar nemenda og hegðunarvandamála.
Tilgangur þessarar rannsóknaráætlunar er undirbúningur rannsóknar þar sem skoðuð verður líðan nemenda 8. bekkjar í grunnskólum Akureyrarbæjar. Áætlað er að kanna tengsl á milli líðanar nemenda og námsárangurs, hvort munur sé á milli kynja í þessum efnum og hvaða þættir hafa mest áhrif á líðan nemenda í skólanum og námsárangur þeirra er. Markmiðið er að fá upplýsingar um hvort tengsl séu á milli líðanar nemenda og námsárangurs. Ef í ljós kemur að tengsl séu þar á milli ættu kennarar að geta nýtt sér rannsóknina til að athuga hvort um raunverulega námsörðugleika sé að ræða eða hvort það sé í raun vanlíðan sem aftri nemendum frá því að ná árangri í námi. Gagnasöfnun fer þannig fram að rannsóknin verður lögð fyrir alla nemendur 8. bekkjar í grunnskólum Akureyrarbæjar og gögnin síðan greind.
Í inngangi er farið yfir bakgrunn og tilgang rannsóknarinnar. Greint er frá fyrri rannsóknum á líðan nemenda í grunnskólum og farið yfir helstu rannsóknarspurningar rannsakanda. Gert er grein fyrir helstu þáttum sem varða samskipti nemenda við jafningja og mikilvægi þess að fá tækifæri til að þroska samskiptahæfni sína á unglingsárum. Fjallað er um mikilvægi umhyggju í skólastarfi og faglegt gildi hennar fyrir störf kennara. Einnig er velt upp hugmyndum um hvernig opna megi grunnskólana og hvernig kennarar geti miðlað þekkingu sinni áfram. Í öðrum kafla er farið yfir þá þætti sem hafa hvað mest áhrif á líðan nemenda innan skólasamfélagsins. Fjallað er um kennaramenntun og fagmennsku kennara og mikilvægi hennar fyrir allt nám. Einnig er farið yfir helstu niðurstöður rannsókna og kannanna sem gerðar hafa verið á líðan nemenda. Að lokum eru umræður um líðan og námsárangur, forsendur vellíðunar og hvað Aðalnámskrá grunnskóla leggur til þeirra mála. Þriðji kafli gerir grein fyrir aðferðafræði rannsóknarinnar og hvaða vinnubrögð verða notuð við framkvæmd hennar. Einnig verður fjallað um mælitæki, úrvinnslu gagna, réttmæti og siðferðislega þætti væntanlegrar rannsóknar.
Ljóst er að margar forsendur þurfa að vera til staðar til þess að börn nái árangri í námi en ein sú mikilvægasta er sú að þeim líði vel. Kennarar, foreldrar og aðrir þeir sem koma að uppeldi barna ættu því ávallt að stefna að því að skapa umhverfi sem börnum líður vel í.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaútgáfa lokaritgerðar minnar.pdf | 1.52 MB | Lokaður | "Rannsóknaráætlun. Tengsl líðanar nemenda í 8. bekk á Akureyri og árangurs þeirra í námi" -heild |