Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20433
Múlakvísl er jökulá á vestanverðum Mýrdalssandi. Í ána rennur bræðsluvatn frá Kötlujökli sem er skriðjökull frá austanverðum Mýrdalsjökli. Askja virku eldstöðvarinnar Kötlu liggur undir Mýrdalsjökli og er hún uppspretta jarðhita. Bræðsluvatn af völdum jarðhita, kallað jarðhitavatn, safnast fyrir undir nokkrum sigkötlum í jöklinum. Snöggt rennsli þessa jarðhitavatns frá einum eða fleiri sigkötlum getur valdið jökulhlaupum í Múlakvísl. Ef frá eru talin mikil jökulhlaup vegna Kötlugosa, hafa hlaup úr sigkötlum ollið skemmdum á mannvirkjum á Mýrdalssandi. Slíkt jökulhlaup varð síðast í júlí 2011. Veðurstofa Íslands stendur fyrir mælingum á rafleiðni í Múlakvísl og nýtast þær við eftirlit með jarðhitavatni í ánni. Há rafleiðnigildi í ánni benda til þess að jarðhitavatn leki í hana úr sigkötlum. Markmið þessa verkefnis er að greina handgerðar rafleiðnimælingar úr Múlakvísl á tímabilinu 1999 til 2014. Gagnasafnið er borið saman við sjálfvirkar mælingar frá sama tímabili, en greining slíkra gagna hefur ekki verið framkvæmd áður. Þriðja fjórðungamark gagnanna var notað sem flóðastuðull og rafleiðnigildi borin saman við hann. Rafleiðnigildi hærri en flóðastuðullinn flokkaðist annað hvort sem „flóð“ eða „sérstaklega há rafleiðni“, sem orsakast af háum styrk jarðhitaefna í Múlakvísl. Mikilvægar niðurstöður eru að há rafleiðnigildi er almennt fleiri eftir jökulhlaupið 2011 og árssveifla rafleiðnigilda er minna áberandi eftir það. Þetta má túlka sem stöðugt rennsli eða leki af jarðhitavatni í ána frá Kötluöskjunni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sigurdis Bjorg_Mulakvisl.pdf | 2.67 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |