is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn í Reykjavík > Tæknisvið / School of Technology > Med/MPM/MSc Tækni- og verkfræðideild (-2019) / School of Science and Engineering >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20510

Titill: 
 • Eftirlit með hönnun og framkvæmd brunavarna í byggingum
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Öryggi fólks og mannvirkja gagnvart bruna er einn af þeim eiginleikum bygginga sem ekki reynir á við daglega notkun. Það er fyrst eftir að eldur er orðinn laus að þessir eiginleikar koma í ljós. Því verður að gæta þess við hönnun og byggingu mannvirkja að þessi þáttur sé í lagi frá upphafi. Brunahönnun felst í að hanna byggingar og brunavarnir þeirra með þeim hætti að fólki og eignum stafi ekki hætta af bruna. Að mörgu er að hyggja í hönnun brunavarna, svo sem brunaeiginleikum byggingarefna, skiptingu bygginga í bruna- og reykhólf, flóttaleiðum, brunamótstöðu burðarvirkja, hættu á eldsútbreiðslu og þörf á brunaviðvörunarkerfum og slökkvibúnaði.
  Byggingarfulltrúi og starfsmenn hans annast opinbert byggingareftirlit. Má gera ráð fyrir að eftirlitshlutverk embættisins sé eitt það umfangsmesta og jafnframt mikilvægasta hlutverk þess. Í lögum um mannvirki nr. 160/2010 er að finna ákvæði um eftirlitsskyldur byggingarfulltrúa. Má greina þetta eftirlitshlutverk byggingarfulltrúa í tvo þætti. Annars vegar er yfirferð hönnunargagna áður en byggt er og hins vegar eftirlit á byggingarstað. Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með því að aðaluppdrættir séu í samræmi við gildandi skipulag, lög og reglugerðir. Hann sér um að þau hönnunargögn sem lögð eru fram séu í samræmi við gildandi reglur um framkvæmdina og áritar síðan uppdrættina með samþykki á þeim. Við eftirlit byggingarfulltrúa á byggingarstað eru hins vegar gerðar lögbundnar úttektir á því hvort byggt sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykkta uppdrætti.
  Störf byggingarafulltrúa sveitarfélaga hafa í sumum tilvikum ekki þótt nógu samræmd og algengt hefur verið að sambærileg mál fái mismunandi afgreiðslu. Byggingarfulltrúar gera mismiklar kröfur til byggingarleyfisumsókna og þá er eftirliti misjafnt háttað. Þrátt fyrir að ákvæði byggingarreglugerðar krefjist tiltekinna úttekta þá er misbrestur á að því sé fylgt eftir í framkvæmd. Slíkt er óheppilegt, ekki síst í ljósi þess að úttektir eru mikilvægur hluti af eftirliti og stuðla að því að almennum öryggiskröfum sé fullnægt. Bæta má úr þessu með handbókum, verklagsreglum, gátlistum, samræmdum eyðublöðum, leiðbeiningum og námskeiðum, svo fátt eitt sé nefnt. Við það ætti að nást betri samræming á öllu landinu.
  Í þessu verkefni er fjallað um þau atriði sem hafa þarf í huga við opinbert eftirlit með hönnun og framkvæmd brunavarna í byggingum til að samræma meðferð mála meðal allra leyfisveitenda og skoðunarstofa, ásamt því að gefa þeim aðilum sem til skoðunar eru kost á því að sjá fyrirfram hvernig eftirlitinu er háttað. Umfjöllun ritgerðarinnar tekur mið af íslenskri réttarframkvæmd þó að erlendar fyrirmyndir verði einnig skoðaðar. Markmiðið með verkefninu er að gefa yfirlit yfir hvað þarf að hafa í huga við eftirlit með hönnun og framkvæmd á brunahönnun. Engin gild skoðunarhandbók er til hér á landi um eftirlit með brunahönnun, en hér eru gerðar tillögur að verklagsreglum og skoðunarhandbók fyrir opinbert eftirlit með brunahönnun og jafnframt settar fram kröfur um eftirlit með framkvæmd brunavarna í mannvirkjum. Að lokum eru settar fram tillögur að leiðbeiningablaði um greinagerð og sannprófun lausna.
  Lykilorð: Brunahönnun, opinbert eftirlit, byggingareftirlit, byggingarreglugerð, lög um mannvirki, verklagsreglur, skoðunarhandbók.

Samþykkt: 
 • 5.2.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20510


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MSc-Guðjón_Rafnsson.pdf1.56 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna