Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2052
Kynferðisbrot teljast með alvarlegustu refsiverðum brotum í íslensku réttarkerfi. Nauðgun og kynferðisbrot gegn börnum eru til að mynda næst alvarlegastu brotin á eftir manndrápi sé horft til refsimarka laganna. Almenn umræða um kynferðisbrot, refsingar fyrir slík brot og um sönnun í kynferðisbrotamálum hefur farið vaxandi í íslensku samfélagi. Vitundarvakning hefur orðið og þekking á eðli og afleiðingum kynferðislegs ofbeldis aukist mikið á undanförnum áratugum eða frá því kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var endurskoðaður með lögum nr. 40/1992. Þá hefur veruleg framför orðið bæði innan réttarvörslukerfisins og heilbrigðiskerfisins til að tryggja réttlátari og skilvirkari meðferð þessara mála. Löggjafinn hefur mætt þróuninni með lagabreytingum sem fela í sér umtalsverðar réttarbætur fyrir þolendur kynferðisbrota. Nýlega voru gerðar breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna sbr. breytingarlög nr. 61/2007 en lögin tóku gildi 4. apríl 2007. Meðal helstu nýmæla er að skilgreining á hugtakinu nauðgun var rýmkuð verulega og er nú gert ráð fyrir að önnur ólögmæt kynferðisnauðung sbr. 195. gr. eldri laga, og misneyting sbr. 196. gr. eldri laga, teljist einnig til nauðgunar. Þá var réttarvernd til handa börnum aukin, m.a. með hærri refsimörkum og breyttum reglum um fyrningu. Óhætt er að fullyrða að með hærri refsimörkum sé löggjafinn að kalla á þyngri refsingar fyrir kynferðisbrot og eru sjáanleg merki þess að refsingar í þessum brotaflokki séu að þyngjast. Í þessari rannsóknarritgerð er ætlunin að kanna annars vegar refsiviðurlög núgildandi laga hvað varðar kynferðisbrot, og hins vegar það hvernig íslenskir dómstólar ákvarða refsingu fyrir slík brot. Gerð verður ítarleg grein fyrir inntaki lagaákvæðanna og refsimati dómstóla, þ.e. á grundvelli hvaða lögmæltu og ólögmæltu refsiákvörðunarástæðna dómstóllinn ákvarðar refsingu hverju sinni og vísað til dómsúrlausna eftir því sem við á.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ML-ritgerð Refsimat dómstóla í kynferðisbrotamálum.pdf | 558.41 kB | Opinn | "Refsimat dómstóla - rannsókn á refsiviðurlögum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beitingu þeirra" - heild | Skoða/Opna |