Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20529
Meðalhófsreglan gildir að íslenskum rétti sem óskráð meginregla, en einnig er hún lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðalhófsreglan felur það í sér að að stjórnvöld verða að gæta hófs við meðferð valds síns og er þeim skylt að líta til þess markmiðs sem starf þeirra stefnir að og taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila sem athafnir og valdbeiting beinist gegn. Stjórnvöldum ber ætíð að líta til meðalhófsreglunnar þegar þau standa frammi fyrir því að taka íþyngjandi ákvörðun og velja þarf úr fleiri en einum kosti við úrlausn máls. Þá skulu stjórnvöld því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Á vissum réttarsviðum hefur löggjafinn veitt stjórnvöldum heimild til að beita lögmæltum þvingunarúrræðum til að ná fram því ástandi sem að er stefnt, án atbeina dómstóla. Slíkum þvingunarúrræðum er einunigs heimilt að beita sé fyrir þeim skýr heimild í lögum og skyldan, sem leitast er við að fá uppfyllta, hvíli á gildri stjórnvaldsákvörðun eða fyrirmælum laga. Þvingunarúrræðum stjórnvalda er skipt í bein og óbein þvingunarúrræði, þar sem þau fyrrnefndu einkennast af því að með þeim er rutt úr vegi hindrunum og komið á lögmætu réttarástandi, án þátttöku málsaðila. Tilgangur óbeinna þvingunarúrræða er hins vegar að hafa áhrif á viljaafstöðu málsaðila þannig að hann láti af ólögmætum athöfnum eða athafnaleysi. Í þessari ritgerð verður meðalhófsreglunni gerð góð skil, auk þess sem farið verður ofan í saumana á þvingunarúrræðum stjórnvalda og kannað verður samspil þessa tveggja þátta í framkvæmd.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ML ritgerð lokaeintak.pdf | 661,31 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |