Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/206
Tilgangur rannsóknarinnar var að öðlast skilning á reynslu íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa starfað á stríðshrjáðum svæðum og að kynna betur þetta starfssvið innan hjúkrunar því þetta er í raun orðið eitt af sérsviðum hjúkrunar. Stríðshjúkrun er sögulegt fyrirbæri og segja má að hjúkrun eins og við þekkjum hana í dag eigi rætur sínar að rekja til hennar. Íslenskir hjúkrunarfræðingar sem hafa starfað við hjálparstarf á stríðshrjáðum svæðum hafa aðallega gert það á vegum Rauða Krossins. Við gerð rannsóknarinnar var stuðst við Vancouver skólann í túlkandi fyrirbærafræði. Valdir voru fjórir meðrannsakendur sem höfðu víðtæka starfsreynslu á þessu sviði. Hittu rannsakendur hvern meðrannsakanda tvisvar og áttu þeir samræður við þá þar sem leitast var við að fá sem skýrasta mynd af upplifun þeirra og reynslu. Niðurstöðurnar voru settar upp sem fjögur þemu. Að vera á stríðshrjáðu svæði (1) er fyrsta þemað. Þar segir frá hversu óraunveruleg ógnin var og að það hafi ekki reynst mjög erfitt að lifa við frelsisskerðingu þar sem hún var þeim til varnar. Annað þemað er Upplifun af starfinu sjálfu (2) og segir frá því hvernig var að: Venjast takmörkuðum aðbúnaði, takast á við krefjandi vinnu og upplifa hjálpina komast til skila. Einnig var fjallað um hið varanlega gildi kennslu og hvernig æðruleysi hinna innfæddu gerðu starfið auðveldara. Þriðja þemað er Að koma heim (3). Þeir höfðu öðlast nýja sýn á samfélagið og störf sín hérna heima. Einnig kom þar fram að þeir upplifðu lítinn skilning frá aðstandendum sínum. Fjarlægðin gerir fjöllin blá (4) var fjórða þemað og lýsir tilfinningum þeirra í dag. Hvað þessi reynsla skilur eftir sig bæði vöxt og missi og hvernig þetta er minning sem stundum veldur söknuði og togstreitu en þrátt fyrir það hvernig þetta er og verður ævintýri. Meginþemað og heiti rannsóknarinnar er ,,Ævintýri gerast enn” og kemur frá einum meðrannsakandanum sem sagði: ,,Þetta er ekki eðlilegt líf, þetta er ævintýri“. Niðurstöðurnar eru ótrúlega sambærilegar við einkenni og uppbyggingu hefðbundinna ævintýrasagna og er þessi skyldleiki ræddur. Rannsóknin er sértæk þar sem engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á Íslandi og ekki fundust sambærilegar erlendar rannsóknir. Þar af leiðandi er notagildi hennar mikið, einna helst fyrir Rauða Krossinn sem getur nýtt sér niðurstöðurnar til að öðlast aukna innsýn í reynslu og upplifun starfsmanna sinna og sem fræðsluefni fyrir sendifulltrúa. Aðstandendur hjúkrunarfræðinga sem eru sendifulltrúar geta fengið betri skilning á upplifun og reynslu þeirra til þess að brúa bilið sem getur skapast á milli þeirra eftir heim komuna. Notagildi rannsóknarinnar fyrir hjúkrun er töluvert þar sem þetta er víðari og dýpri vitneskja, en áður hefur verið til um þetta starf. Hjúkrunarfræðingar öðlast hér innsæi sem getur hjálpað þeim að sjá hvort þeir vilji starfa á stríðshrjáðum svæðum. Við starf sem færir þá mjög nálægt uppruna hjúkrunar í starfi Florence Nightingale.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
aevint.pdf | 670.19 kB | Takmarkaður | Ævintýri gerast enn - heild | ||
aevint-e.pdf | 79.38 kB | Opinn | Ævintýri gerast enn - efnisyfirlit | Skoða/Opna | |
aevint-h.pdf | 114.89 kB | Opinn | Ævintýri gerast enn - heimildaskrá | Skoða/Opna | |
aevint-u.pdf | 102.14 kB | Opinn | Ævintýri gerast enn - útdráttur | Skoða/Opna |