is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8267

Titill: 
  • Samspil opinbers innkauparéttar og samkeppnisréttar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Opinber innkauparéttur og samkeppnisréttur gegna mikilvægu hlutverki við stefnumörkun í athöfnum hins opinbera og í lagasetningu þar að lútandi. Í ritgerðinni „Samspil opinbers innkauparéttar og samkeppnisréttar“ verður reynt að svara því hvernig samspili þessara tveggja réttarsviða er háttað og með hvaða móti þau skarast, þ.e. hversu langt ganga samkeppnisreglur inn á svið opinbers innkauparéttar og öfugt.
    Í upphafi ritgerðarinnar er fjallað almennt um samkeppnislög nr. 44/2005, þróun þeirra og gildissvið. Þá er fjallað á sambærilegan hátt um lög um opinber innkaup nr. 84/2007 og er jafnframt farið yfir tengsl réttarsviðanna við Evrópurétt. Þá er gerð ítarleg grein fyrir mismunandi viðmiðunarfjárhæðum sem gilda í innkaupum opinberra aðila og farið yfir mismunandi innkaupaferli opinberra aðila.
    Markmið löggjafans með setningu laga um opinber innkaup nr. 84/2007 er þá sérstaklega kannað bæði hér á landi og í Evrópurétti. Til samanburðar er jafnframt farið yfir danskan rétt. Þetta er kannað með hliðsjón af samkeppnismarkmiðinu. Þá er sömuleiðis gerð grein fyrir stöðu samkeppnisréttarins gagnvart opinberum innkaupum og með hvaða hætti samkeppnisyfirvöldum er heimilt að grípa inn í innkaup opinberra aðila í dönskum, íslenskum og Evrópurétti. Enn fremur er gerð sérstök grein fyrir jákvæðum áhrifum samkeppnisreglna á framkvæmd opinberra innkaupa og skilvirkni þeirra og í því samhengi er fjallað um innkaupastefnu ríkisins og áhrifum hennar á opinber innkaup með hliðsjón af samkeppni.
    Tengsl markmiðsins um virka samkeppni við jafnræðisregluna og meginregluna um bann við mismunun í opinberum innkauparétti er jafnframt gert að sérstöku umfjöllunarefni. Þá er gerð ítarleg grein fyrir samkeppnishömlum í opinberum innkaupum og áhrifum þeirra á framkvæmd innkaupa. Fjallað er um dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og svo er farið yfir framkvæmd samkeppnisyfirvalda í Bretlandi, Danmörku og Íslandi. Í síðasta kaflanum er svo fjallað um það misræmi sem ríkir hérlendis hvað varðar viðmiðunarfjárhæðir ríkisins annars vegar og sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér hins vegar, sbr. 2. mgr. 19. gr. l. nr. 84/2007 um opinber innkaup. Þá er það kannað sérstaklega hvernig fyrirkomulaginu er háttað í Bretlandi og Danmörku. Þá er því velt upp hvort að misræmið kunni að hafa í för með sér einhverja samkeppnisröskun í íslenskum rétti.
    Að lokum eru dregnar ályktanir af ofangreindri umfjöllun og gerð grein fyrir niðurstöðum í sérstökum lokakafla. Þar kemur m.a. fram að samkeppni sé órjúfanlegur hluti af opinberum innkaupareglum en ýmsir vankantar hafa þó gert vart við sig á síðustu misserum sem hindra að virk samkeppni fá notist við á öllum sviðum opinberra innkaupa. Í þeim efnum verður að horfa bæði til samkeppnisreglna og regluverks um opinber innkaup. Þá eru vankantarnir ekki bundnir við eitt réttarkerfi og er bæði að finna í Evrópurétti og íslenskum rétti.

Samþykkt: 
  • 4.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8267


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð.pdf1.09 MBLokaðurHeildartextiPDF