is Íslenska en English

Lokaverkefni (Doktors)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Doktorsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16823

Titill: 
  • Titill er á ensku Early and late sternal wound infections following open heart surgery
  • Snemm- og síðkomnar sýkingar í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir
Námsstig: 
  • Doktors
Útdráttur: 
  • Sýkingar í bringubeinsskurði eru á meðal alvarlegustu fylgikvilla opinna hjartaskurðaðgerða. Sýkingarnar auka sjúkdómsbyrði sjúklinga og dánartíðni. Einnig hlýst mikill kostnaður af endurteknum skurðaðgerðum og langvarandi sýklalyfjameðferð. Djúpar bringubeinssýkingar eru algengastar og alvarlegastar þessara sýkinga en síðkomnar sýkingar sem leitt geta til myndunar á bringubeinsfistlum eru sjaldgæfari. Á síðustu tveimur áratugum hefur dánartíðni eftir bringubeinssýkingar lækkað vegna skilvirkari meðferðar, sér í lagi með tilkomu sárasogsmeðferðar. Þá er svampi komið fyrir í sárinu, hann tengdur við sog og þannig ýtt undir sáragræðslu.
    Þessi doktorsritgerð samanstendur af fjórum ritrýndum greinum (I-IV) og voru markmiðin tvíþætt. Í fyrsta lagi að kanna tíðni, áhættuþætti, sýkingavalda og afdrif sjúklinga með djúpar bringubeinssýkingar á Íslandi með áherslu á árangur sárasogsmeðferðar. Í öðru lagi að kanna sömu þætti hvað varðar bringubeinsfistla í vel skilgreindu sjúklingaþýði, bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og þær skráðar rafrænt. Áhættuþættir voru metnir með fjölþátta aðhvarfsgreiningu og notast var við tilfella-viðmiðasnið. Lifun var annað hvort metin með beinum samanburði eða með aðferð Kaplan-Meier.
    Grein I byggir á niðurstöðum úr lýðgrundaðri rannsókn á 41 sjúklingi sem greindist með djúpa bringubeinssýkingu á Íslandi á árunum 1997 til 2004, eða 2,5% af öllum sjúklingum sem gengust undir opna hjartaskurðaðgerð á tímabilinu. Algengustu sýkingarvaldar voru Staphylococcus aureus (41% tilfella) og kóagúlasa neikvæðir staphylokokkar (37%). Helstu sjálfstæðu áhættuþættir djúpra bringubeinsýkinga voru: útæðasjúkdómur, enduraðgerð vegna blæðinga, heilablóðfall, offita, lágt útfallsbrot vinstri slegils og reykingar. Hlutfall sjúklinga sem létust innan 30 daga var 10% hjá sjúklingum með sýkingu borið saman við 4% í viðmiðunarhópi (p=0,17). Dánartíðni einu ári frá aðgerð var marktækt hærri eða 17% borið saman við 6% í viðmiðunarhópi (p=0,02). Sjúklingar með djúpa bringubeinssýkingu lágu að jafnaði 33 dögum lengur á sjúkrahúsi en þeir sem ekki voru sýktir.
    Í grein II er fjallað um niðurstöður rannsóknar þar sem 23 sjúklingar fengu hefðbundna meðferð (sáragrisjur og/eða skol) við djúpri bringubeinssýkingu á tímabilinu janúar 2000 og fram til loka ágústmánaðar 2005. Þessi 23 einstaklingar voru bornir saman við 20 sjúklinga sem meðhöndlaðir voru með sárasogsmeðferð frá byrjun september 2005 og fram til loka desember 2010. Miðgildi gjörgæslulegu og heildarlegutíma var svipað í báðum hópum. Átta sjúklingar (35%) sem meðhöndlaðir voru með hefðbundinni meðferð fengu aftur djúpa bringubeinssýkingu en aðeins einn (5%) í sárasogshópi (p=0,02). Sex sjúklingar sem fengu hefðbundna meðferð greindust síðar með síðkomna bringubeinssýkingu sem krafðist skurðaðgerðar, borið saman við einn af 23 sem fengu sárasogsmeðferð (p=0,10). Hóparnir tveir, þ.e. út frá hefðbundinni meðferð og sárasogsmeðferð, mældust með sambærilega dánartíðni bæði eftir þrjátíu daga (4% sbr. 0%, p=1,0) og eitt ár (17% sbr. 0%, p=0,07) frá skurðaðgerð.
    Í greinum III og IV kemur fram að tíðni bringubeinsfistla sem þurfti að meðhöndla með skurðagerð var 0,26% á Skáni í Svíþjóð og 0,25% á Íslandi. Í sænsku rannsókninni sem var tilfella-viðmiðarannsókn reyndust sjálfstæðir áhættuþættir bringubeinsfistla vera fyrri saga um grunna eða djúpa bringubeinssýkingu, nýrnabilun, reykingar og notkun beinvax. Algengustu sýkingarvaldarnir voru kóagúlasa neikvæðir staphylokokkar (63% tilfella) og S. aureus (19% tilfella). Í sænska þýðinu var auk sýklalyfja beitt sárasogsmeðferð við 20 sjúklinga en á Íslandi voru allir sjúklingar meðhöndlaðir með hefðbundinni meðferð, sem fól í sér allt að 10 skurðaðgerðir. Legutími sjúklinga með bringubeinsfistla var 29 dagar í Svíþjóð og létust 6% sjúklinganna á sjúkrahúsi en fimm ára lifun var 58% fyrir sjúklinga með bringubeinsfistil borið saman við 85% hjá viðmiðunarhópi (p=0,003). Á Íslandi var meðallegutími 19 dagar (bil 0 til 50) og enginn lést vegna meðferðar bringubeinsfistils.
    Bæði djúpar bringubeinssýkingar og bringubeinsfistlar auka dánarlíkur sjúklinga sem gengist hafa undir opna hjartaðagerð. Legutími er verulega lengdur og þessir sjúklingar þarfnast endurtekinna skurðaðgerða. Tíðni, áhættuþættir og lifun sjúklinga með djúpa bringubeinssýkingu eru svipaðir á Íslandi og lýst hefur verið erlendis. Sárasogsmeðferð hefur dregið marktækt úr endurkomu djúpra bringubeinssýkinga sem krefjast skurðaðgerðar, sem rökstyður notkun slíkrar meðferðar í þorra tilfella. Hins vegar reyndist ekki tölfræðilega marktækur munur á sárasogsmeðferð og hefðbundinni meðferð hvað varðar lengd sjúkrahúsdvalar, tíðni síðkominna bringubeinssýkingasýkinga né dánartíðni. Þótt bringubeinsfistlar séu tiltölulega sjaldgæfir þá fylgir þeim aukin sjúkdómsbyrði og lifun sjúklinga er lakari. Í dag er ekki ljóst hver kjörmeðferð bringubeinsfistla er en í flestum tilfellum er hægt að uppræta sýkinguna með sárasogi.

Samþykkt: 
  • 31.10.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16823


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Steinn_Steingrimsson_b5_Skemman.pdf2.12 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna