Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20719
Endurskoðendur setja sér endurskoðunaráætlun áður en endurskoðunin hefst. Ákvörðun mikilvægismarka er einn þáttur endurskoðunaráætlunar en það er sú fjárhæð sem reikna má með að skekkjur eða villur samanlagt mynda og hægt er að samþykkja án þess að óska eftir leiðréttingum á reikningsskilum. Mikilvægismörk eru ekki föst fjárhæð en ákvörðunin er faglegt mat endurskoðenda. Upphafspunkturinn í ákvörðun mikilvægismarka er ákvörðunin um hvaða viðmið skuli miða við úr reikningsskilum. Þá þurfa endurskoðendur að meta aðra þætti sem tengjast fyrirtækinu og því umhverfi sem það starfar í.
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvernig ákvörðun mikilvægismarka fer fram hérlendis.
Félagsmönnum Félags löggiltra endurskoðenda var sendur spurningalisti. Fyrri hluti hans snéri að bakgrunnsupplýsingum (kyn, starfsreynsla og starfsvettvangur) en seinni hluti að mikilvægismörkum (viðmið, hlutfall, ákvörðun hlutfalls og mikilvægismarka, nákvæmnismörk, endurmati og hvort stjórn var upplýst eða ekki svo og þóknun fyrir endurskoðunina).
Þátttaka var um 50%, karlar voru fleiri en konur og flestir höfðu starfsreynslu innan 10 ára. Það voru einkum meðeigendur og liðstjórar endurskoðunarfyrirtækja sem komu að ákvörðun mikilvægismarka. Helstu viðmið og miðgildi hlutfalls þeirra voru hagnaður fyrir skatt (10%), heildartekjur (1%), heildareignir (1%) og eigið fé (5%). Áhrif á ákvörðunina voru skekkjur fyrri ára, eignarhald og hvort innra eftirlit var til staðar eða ekki. Endurmat var sjaldnast framkvæmt og stjórnendur eða stjórn fyrirtækja var upplýst um mikilvægismörk í helming tilvika. Nákvæmnismörk voru að miðgildi 75% og oftast var um tímaþóknun að ræða. Samanburður milli stærðar endurskoðunarfyrirtækja var ekki mögulegur vegna smæðar þýðis litlu endurskoðunarfyritækjanna.
Niðurstöður benda til að ákvörðun um mikilvægismörk sé með sambærilegu sniði og erlendis sem kemur ekki á óvart í ljósi þess að flest stóru endurskoðunarfyrirtækin starfa á alþjóðlegum vettvangi og þar sem fyrirliggjandi eru almennar leiðbeiningar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mat á mikilvægismörkum milli endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja.pdf | 494.7 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |