is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35654

Titill: 
  • Greining og meðferð sjúklinga með krabbamein í ristli- og endaþarmi árin 2014-2018
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Ristil- og endaþarmskrabbamein er meðal algengustu krabbameinum bæði karla og kvenna hér á landi. Í nær öllum tilfellum skjúkdómsins þarf sjúklingur að gangast undir umfangsmikla skurðaðgerð til að læknast af sjúkdómnum. Á síðustu árum hefur gæðaskráning verið hafin á greiningu og meðferð krabbameina með það að markmiði að leggja mat á meðferð sjúkdómsins og bæta hana. Þetta verkefni er liður í þeirri gæðaskráningu. Markmið verkefnisins var að meta hina ýmsu þætti sem komu að greiningu og meðferð ristil- og endaþarmskrabbameina árið 2018 og bera saman við árin 2014 - 2017.
    Efni og aðferðir: Viðfangsefni þessarar rannsóknar voru allir þeir einstaklingar sem greindir voru með ristil- eða endaþarmskrabbamein á Íslandi árið 2018 (n=198) og byggðust gögnin á úrtaki frá Krabbameinsskrá. Upplýsingar um greiningu og meðferð voru fundnar í sjúkraskrárkerfi Landspítala.
    Upplýsingarnar voru skráðar í eyðublöð Heilsugáttar Landspítalans og eru þau byggð á sænsku gæðaskráningunni. Niðurstöðurnar skráningarinnar voru bornar saman við niðurstöður fyrri skráninga frá árunum 2014 - 2017 sem fengust frá Krabbameinsskrá (n=718).
    Niðurstöður: Alls greindust 198 einstaklingar með ristil- og endaþarmskrabbamein árið 2018 sem var aukning frá fyrri árum. Alls voru sjúklingarnir 916 yfir tímabilið 2014-2018. Meðalaldur við greiningu árið 2018 var 67 ár og voru karlar 55% greindra en konur 45%. Um 76% meinanna voru staðsett í ristli, 23% voru staðsett í endaþarmi og um 2% var ekki hægt að staðsetja nákvæmlega. Borið saman við fyrri ár var töluvert hærra hlutfall sjúklinga rætt á samráðsfundi fyrir aðgerð árið 2018 en árin á undan eða 44% sjúklinga sem gengust undir skipulagða brottnámsaðgerð. Hins vegar var hlutfallið óbreytt á samráðsfundum eftir aðgerð eða 51%. Erfiðara var að nálgast stigun sjúklinga fyrir aðgerð miðað við fyrri ár en 115 sjúklingar með ristilkrabbamein og 11 sjúklingar með endaþarmskrabbamein fengu stigunina Tx.. Flestir sjúklinganna gengust undir aðgerð á Landspítalanum eða 188 þeirra, 4 voru skornir á Akureyri og 6 á Akranesi árið 2018. Um 60% aðgerða á ristilkrabbameinum voru kviðsjáraðgerðir, um 26% aðgerðanna voru opnar og um 14% aðgerða byrjuðu í kviðsjá en var breytt í opna. Í tilfelli endaþarmskrabbameina voru um 47% aðgerða gerðar með kviðsjá, 25% voru opnar og um 28% byrjuðu í kviðsjá en var breytt í opna aðgerð. Aukning var á vefjasýnum sem innihéldu að minnsta kosti 12 eitla eftir brottnámsaðgerð. Enduraðgerðum fækkaði árið 2018 og var blæðing algengasta ástæða enduraðgerða á öllu tímabilinu.
    Ályktanir: Rannsókn þessi gaf góða mynd af því hvernig greining og meðferð ristil- og endaþarmskrabbameina var háttað árið 2018 og hvernig hún hefur þróast á tímabilinu 2014 – 2018. Hægt er að sjá bæði jákvæðar og neikvæðar breytingar á meðferðinni milli áranna 2014 til 2018. Dæmi um jákvæða þróun var að sjá að tilfelli sjúklinga sem rædd voru á samráðsfundum fjölgaði á tímabilinu, að enduraðgerðum fækkaði og að fleiri aðgerðarsýni innihéldu að lágmarki 12 eitla. Á hinn bóginn var það neikvætt að færri sjúklingum var gefin fullnægjandi cTNM stigun í myndgreiningarsvörum fyrir aðgerð.

Samþykkt: 
  • 25.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35654


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ÞórðurLÞ_BSritgerð.pdf5.97 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
2070_001.pdf49.93 kBLokaðurYfirlýsingPDF