is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35629

Titill: 
  • Dánarorsakir íslenskra barna 1971-2018
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Dánarhlutfall barna er mikilvægur mælikvarði á heilbrigðisástand þjóða, en á Íslandi er það með því lægsta sem gerist í heiminum. Til þess að fækka dauðsföllum barna markvisst er nauðsynlegt að þekkja helstu dánarorsakir þeirra hverju sinni. Markmið rannsóknarinnar var að finna dánarhlutfall barna á Íslandi lagskipt eftir kyni, aldri og búsetu, greina dánarorsakir þeirra á rannsóknartímabilinu og leggja mat á mögulegar aðgerðir til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll barna.
    Efniviður og aðferðir: Um er að ræða afturskyggna lýsandi rannsókn sem náði til allra íslenskra barna frá fæðingu upp að 18 ára aldri sem létust á tímabilinu, frá 1. jan 1971 til og með 31. des 2018. Upplýsingar um þau 2005 börn sem létust á tímabilinu voru fengnar úr Dánarmeinaskrá Embættis Landlæknis, en tölur um fjölda lifandi barna á hverjum tíma fengust hjá Hagstofu Íslands. Búseta var skráð eftir heilbrigðisumdæmum. Þegar frekari upplýsinga var þörf voru sjúkraskrár og/eða krufningarskýrslur frá Landspítala skoðaðar. Poisson línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að greina lækkun dánarhlutfalls eftir kyni. Til að meta fækkun dauðsfalla og kynjamun innan dánarorsaka var kí-kvaðrat próf notað þar sem borin voru saman fyrstu 10 ár tímabilsins við síðustu 10 árin.
    Niðurstöður: Drengir voru 59% líklegri til að deyja á tímabilinu en stúlkur (ÖB: 0,51-0,67) en dánarhlutfall þeirra lækkaði úr 1,5 fyrir hverja 1000 lifandi drengi í 0,18 (88% lækkun), árleg lækkun var um 4,3% (ÖB: 0,95-0,96). Dánarhlutfall stúlkna lækkaði um 81%, úr 0,9 í 0,17, árleg lækkun um 3,4% (ÖB: 0,96-0,98). Dánarhlutfall barna fyrir fimm ára aldur lækkaði um 89%, úr 3,5 í 0,4 fyrir drengi og úr 2,8 í 0,3 fyrir stúlkur, árleg lækkun um 4,4% (ÖB: 0,95-0,96). Dánarhlutfall lækkaði í öllum heilbrigðisumdæmum á árunum 1991-2018. Helstu dánarorsakir voru burðarmálskvillar (n=525), slys (n=447), meðfæddir sjúkdómar (n=371), sýkingar (n=157), krabbamein (n=122), taugakerfissjúkdómar (n=76), sjálfsvíg (n=56) og hjarta- og æðasjúkdómar (n=35). Af ofantöldum dánarorsökum var marktæk fækkun á dauðsföllum vegna burðarmálskvilla, slysa, meðfæddra sjúkdóma, sýkinga og krabbameina (p <0,0001). Ekki var lækkun á dánarhlutfalli í taugakerfissjúkdómum og hjarta- og æðasjúkdómum sem ekki töldust til meðfæddra kvilla, né sjálfsvígum þar sem einnig var marktækur kynjamunur.
    Ályktanir: Gífurleg lækkun hefur orðið á dánarhlutfalli barna á tímabilinu og hefur tekist að fækka fyrirbyggjanlegum dauðsföllum verulega með forvörnum og bættri heilbrigðisþjónustu. Enn eru þó mörg börn sem lenda í banaslysum og er þar helst að nefna umferðarslys. Mikilvægt er að halda áfram með þær slysavarnir sem framkvæmdar hafa verið seinustu ár til að lækkunin haldi áfram. Ekki var fækkun á sjálfsvígum á tímabilinu og var þar einnig áberandi kynjamunur. Mikilvægt er að auka vitund barna um geðheilbrigði og fjölga úrræðum fyrir þau sem þurfa á aðstoð að halda. Nýjar fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum eru nú í gangi sem gætu sýnt árangur á næstu árum. Niðurstöðurnar sýna frábæran árangur þjóðarinnar í lækkun dánarhlutfalls barna hér á landi og leiða vonandi til áframhaldandi fækkunar á ótímabærum dauðsföllum barna.

Samþykkt: 
  • 25.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35629


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
marinarosL_BSritgerd.pdf5.39 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing1.pdf462.75 kBLokaðurYfirlýsingPDF