is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27528

Titill: 
  • Nýir Íslendingar. Heilsufar nýrra Íslendinga sem koma í fyrstu skimun eftir flutning til Íslands á Barnaspítala Hringsins.
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Innflytjendur eru alltaf að verða stærri hluti af íslensku samfélagi. Nýir Íslendingar eiga sér ólíkan bakgrunn og mismunandi ástæður liggja að baki komu þeirra til landsins. Sumir eru innflytjendur sem höfðu tíma til að undirbúa sig og völdu Ísland sérstaklega. Aðrir eru kvótaflóttamenn, einstaklingar sem eru að flýja stríð og er úthlutað Íslandi og enn aðrir hælisleitendur, einstaklingar að flýja ofsóknir og hörmungar eða einfaldlega að leita að betra lífi og vonast til að fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Börn eru ættleidd til landsins frá ýmsum heimshlutum. Innflytjendur koma gjarnan frá landsvæðum þar sem heilbrigðiskerfið er ekki sambærilegt því íslenska og algengi smitsjúkdóma ólíkt því sem gerist hér. Vegna þessa setti embætti landlæknis ákveðnar verklagsreglur um að allir umsækjendur um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sem og kvótaflóttamenn frá Mið- og Suður-Ameríku, þ.m.t. Mexíkó, Evrópu utan EES, Asíu eða Afríku skulu gangast undir læknisrannsókn vegna sóttnæmra sjúkdóma. Umsækjendur frá EES, Sviss, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi eða Ísrael þurfa ekki undirgangast læknisrannsókn. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvert sé algengi smitsjúkdóma hjá börnum sem flytjast til landsins, hvort algengi sé ólíkt eftir ástæðu komu til landsins eða upprunasvæðum. Einnig vildum við athuga hvort margir fleiri greinist með leynda berkla eftir að viðmiðið á jákvæðu Mantoux prófi breyttist. Að lokum kanna hvort ástæða sé til að breyta lista yfir þau lönd sem eru skimuð.
    Efni og aðferðir: Rannsókn þessi nær til allra barna sem komu í fyrstu skoðun á Barnaspítala Hringsins eftir komu til landsins á tímabilinu frá 1. janúar 2006 til 31. desember 2015 (n=1245). Notast var við gagnagrunn í formi læknabréfa sem teymi innflytjendamóttöku hefur haldið utan um og fengust upplýsingar með leit eftir ICD-10 greiningum í sögukerfi LSH.
    Niðurstöður: Alls undirgengust 1245 börn skimun á tímabilinu: 724 almennir innflytjendur, 68 flóttamenn, 106 hælisleitendur, 24 skiptinemar og 170 þar sem óljóst var hvernig komu væri háttað.
    Af börnunum sem undirgengust skimun voru 14,3% með smitsjúkdóm, einn eða fleiri. Flest voru með leynda berkla, 88 börn (7,1% af skimuðum) og sníkjudýr í saur 86 börn (7,4% af skimuðum). Þá voru 9 börn með lifrarbólgu B (0,76% skimaðra) og eitt barn með sárasótt (0,084%). Af leyndum berklum komu flestir frá Filipseyjum, 29 börn eða 17,9% allra sem komu þaðan og Póllandi, 19 börn eða 13,9% pólskra barna. Marktækt fleiri innflytjendur voru með leynda berkla fram yfir hælisleitendur og flóttamenn (p=0,00084). Alls fundust 15 tegundir meinvaldandi sníkjudýra í saur og voru algengustu: Giardia lamblia, Trichuris trichuria og Ascaris lumbricoides. Marktækt fleiri frá löndum sunnana Sahara (p=0,048) og frá Suður Ameríku (p=0,031) voru með sníkjudýr í saur. Einnig voru marktækt fleiri flóttamenn (p=0,0021) en fóru þeir allir í gegnum flóttamannabúðir. Einungis komu 37,4% barnanna með bólusetningaskírteini en af þeim voru 94% vel bólusett. Af börnum með skírteini voru 89,7% með MMR mótefni í blóði borið saman við 81,5% þeirra sem voru ekki með skírteini.
    Ályktun: Rannsóknin okkar leiðir í ljós að börn sem koma í skimun eru almennt hraust, inngrip af hálfu heilbrigðiskerfisins eru óþörf í flestum tilfellum og skimun mögulega of ítarleg á Barnaspítalanum. Helst fundust leyndir berklar og sníkjudýr í saur. Íhuga ætti að endurskoða lista yfir þau lönd sem eru skimuð fyrir leyndum berklum, með tilliti til Póllands og Eystrasaltslandanna.

Samþykkt: 
  • 12.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27528


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Stella_Run_Gud.pdf1.97 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
BS_Stella_serskjal.pdf1.09 MBLokaðuryfirlýsingu um meðferð verkefnisins.PDF