is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20784

Titill: 
  • Hvenær telst lán vera í erlendum gjaldmiðlum? Með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar í gengistryggingarmálum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Á árunum fyrir efnahagshrunið var algengt að lánastofnanir hér á landi byðu upp á peningalán, þar sem lántakar fengu afhentar íslenskar krónur en áttu síðan að endurgreiða lánið miðað við gengi erlendra gjaldmiðla á greiðsludegi einstakra afborgana. Slík gengistrygging var ýmist miðuð við eina tiltekna erlenda mynt eða við fleiri myntir í nánar tilgreindum hlutföllum. Peningalán þessi gengu undir ýmsum nöfnum má þar meðal annars nefna „myntkörfulán“, „erlent myntkörfulán“, „lánssamninga í erlendri mynt/myntum“ o.fl. Þess ber að geta að samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu (hér eftir skammstöfuð vxl.) er óheimilt að miða skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Áðurnefnd orðanotkun getur því verið villandi ef erlend mynt skiptir ekki raunverulega um hendur í viðskiptum lánveitanda og lántaka. Lán þar sem erlend mynt skiptir raunverulega um hendur eru annars eðlis en lán í íslenskum krónum sem bundin eru við gengi erlendra gjaldmiðla en þau verða hér eftir nefnd „gengistryggð lán“.
    Höfuðstóll gengistryggðra lána hækkaði verulega í kjölfar efnahagshrunsins 2008 enda hríðféll gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum á sama tíma. Í kjölfarið hafa verið rekin fjölmörg mál fyrir dómstólum þar sem reynt hefur á lögmæti samningsákvæða sem binda endurgreiðslu lána við gengi erlendra gjaldmiðla. Í umræddum málum hefur einkum reynt á tvö álitaefni. Annars vegar það hvenær lán telst vera gilt lán í erlendum gjaldmiðlum frekar en gengistryggt lán. Hins vegar hefur verið deilt um það hvernig fari um vexti af slíkum skuldbindingum. Markmið þessarar ritgerðar er að kryfja fyrra álitaefnið til mergjar með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar. Rétt er að minna á að dómstólar eru, í samræmi við málsforræðisreglu einkamálaréttarfars, bundnir af þeim röksemdum sem aðilar máls tefla fram hverju sinni.
    Ritgerðin er þannig upp byggð að í öðrum kafla verður gerð grein fyrir þeim meginreglum á sviði samningaréttar sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar gengistryggð lán eru könnuð. Í þriðja kafla verður fjallað um þær reglur sem gilda um ógilda löggerninga. Í fjórða kafla er að finna umfjöllun um verðtryggingu og ákvæði vxl. Meginumfjöllunarefni ritgerðarinnar er að finna í fimmta kafla, en þar er dómaframkvæmd Hæstaréttar reifuð. Í sjötta kafla verða dregnar ályktanir af þeirri dómaframkvæmd sem reifuð var í fimmta kafla. Loks er að finna samantekt í sjöunda kafla.

Samþykkt: 
  • 14.4.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20784


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA ritgerð Snaebjorn Olafsson.pdf347.25 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna