is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20790

Titill: 
 • Felur tjáningarfrelsi stjórnmálamanna í sér frelsi til hatursorðræðu? Víðtækt tjáningarfrelsi stjórnmálamanna
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Verulegir þjóðfélagslegir hagsmunir velta á því að opinber skoðanaskipti og frjáls umræða fái að þrífast og þá sérstaklega á vettvangi stjórnmála. Ástæða þess er sú, að stjórnmál og stjórnmálamenn fjalla um málefni líðandi stundar og geta stjórnmálamenn, sem handhafar löggjafarvalds samkvæmt stjórnarskránni, brugðist við því sem fram kemur í opinberri umræðu um þjóðfélagslega hagsmuni og sett almennar reglur um samskipti einstaklinga og lögaðila á tilteknu réttarsviði. Opinber umræða getur aftur á móti verið óvægin og varðað hagsmuni tiltekinna þjóðfélagshópa – í slíkum tilvikum reynir m.a. á hversu langt tjáningarfrelsið nær og hvort að einstaklingar, þ.m.t. stjórnmálamenn, beri ábyrgð vegna hatursfullra ummæla um menn og málefni. Í þessari ritgerð verður leitast við að svara því hvort í tjáningarfrelsi stjórnmálamanna, bæði ráðherra og þingmanna, felist frelsi til hatursorðræðu.
  Hatursorðræða (e. hatespeech) hefur ekki eina alþjóðlega viðurkennda skilgreiningu, en í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins hefur verið vísað til hatursorðræðu með eftirfarandi skilgreiningu: „...öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðinghatur eða annars konar hatur sem byggist á skorti á umburðarlyndi, þar á meðal skorti á umburðarlyndi sem er tjáð með óvæginni þjóðernishyggju eða mismun og fjandskap gegn minnihlutahópum og fólki af erlendum uppruna.“
  Ljóst er að öllu frelsi fylgir ábyrgð og þar er tjáningarfrelsið hvergi undanskilið. Stjórnmálamenn þurfa að geta ábyrgst tjáningu sína fyrir dómi. Tjáning sem framlag til pólitískrar umræðu nýtur mestrar verndar og lítið svigrúm er til takmarkana þegar tjáningin er innlegg í almenna þjóðmálaumræðu. Það þarf því að sýna fram á nauðsyn takmarkana með afgerandi hætti og virðast einu leyfilegu skorðurnar miða að því að stöðva tjáningu sem hvetur til ofbeldis eða haturs í garð tiltekinna þjóðfélagshópa.
  Mikilvægt er að greina á milli pólitískrar umræðu annars vegar og hatursorðræðu hins vegar, þar sem stjórnmálamenn hafa víðtækara tjáningarfrelsi en aðrir. Af dómaframkvæmd má draga þá ályktun að litið er til þess í hvaða samhengi ummælin eru sett fram, hver tilgangur og eðli þeirra sé og á hvaða vettvangi þau eru sett fram. Til þess að orðræða stjórnmálamanna teljist haturorðræða verður að vera ásetningur til að ýta undir hatur á ákveðnum hóp, hvatning eða áskorun til haturs og orsakasamband þannig að afleiðing hafi komið fram eða líklegt þyki að tjáningin hafi afleiðingar. Í þessu sambandi getur reynst erfitt að koma auga á hvenær tjáningin felur í sér hatursorðræðu, enda eru verulegir þjóðfélagslegir hagsmunir í því að stjórnmálamenn hafi frelsi til umræðna og opinberra skoðanaskipta. Hvort um hatursorðræðu sé að ræða grundvallast m.a. á því í hve nánum tengslum ummælin hafa verið við pólitísk deiluefni sem snerta almenning eða hvort í þeim hafi falist hvatning til mismununar og ofbeldis.
  Nauðsynlegt er að hafa náið eftirlit með beitingu löggjafar gegn hatursorðræðu, þar sem ávallt þarf að legga til grundvallar mikilvægi tjáningarfrelsis, því auðvelt getur reynst að misnota löggjöfina svo hún þaggi niður í minnihlutahópum og komi í veg fyrir lögmæta andstöðu, skoðanaskipti og gagnrýnisraddir. Þjóðfélagsumræða þarf alltaf að njóta ríkrar verndar þó hún sé oft á tíðum verulega hvöss og gagnrýnin.
  Á Íslandi hefur fjölbreytni samfélagsins aukist á síðustu árum og hatursorðræða birtist ekki aðeins í hefðbundnum dæmum eins og rasisma, heldur einnig í nýlegri málum eins og í deilum um málefni múhammeðstrúarmanna. Ég vona að með þessari ritgerð varpi ég nokkru ljósi á það hvað er leyfilegt og hvað ekki í sambandi við hatursorðræðu stjórnmálamanna sem að mínu áliti hefur aukið vægi í vaxandi fjölmenningarsamfélagi á Íslandi.

Samþykkt: 
 • 14.4.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20790


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.pdf517.08 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna