is Íslenska en English

Grein

Landbúnaðarháskóli Íslands > Rafræn tímarit > Rit LbhÍ >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20810

Titill: 
 • Vetrar- og nýtingarþol gras- og smárayrkja í túnrækt
Efnisorð: 
Útgáfa: 
 • Desember 2014
Útdráttur: 
 • 1. Vorið 2009 var sáð í yrkja- og tegundatilraunir á 23 stöðum hringinn í kringum landið. Þrjár þeirra voru á starfsstöðvum LbhÍ á Korpu, Hvanneyri og Möðruvöllum en aðrar tilraunir voru í túnum hjá bændum. Sáð var 24 yrkjum af 12 tegundum túngrasa og smára og einn liður var með blöndu af tveimur smárategundum og tveimur grastegundum. Eftirtaldar tegundir voru í tilraununum: Vallarfoxgras (Phleum pratense L.), hávingull (Festuca pratensis Huds.), axhnoðapuntur (Dactylis glomerata L.), vallarsveifgras (Poa pratensis L.), hálíngresi (Agrostis capillaris Sibth.), vallarrýgresi (Lolium perenne L.), tágavingull (Festuca arundinacea Schreb.), hvítsmári (Trifolium repens L.), túnsmári (Trifolium hybridum L.) og rauðsmári (Trifolium pratense L.). Á tilraunastöðvunum var sáð nokkrum yrkjum til viðbótar þeim sem voru á öllum stöðunum og auk þess tveimur yrkjum af refasmára (Medicago sativa L.).
  2. Þrjár tilraunir voru dæmdar ónýtar eftir fyrsta veturinn þar sem sáning hafði ekki tekist nógu vel og var tilraunin á Hvanneyri ein þeirra. Sú fjórða datt út eftir annan veturinn vegna kals.
  3. Uppskera og lifun yrkjanna var mæld árlega á Korpu og Möðruvöllum. Tilraunirnar í túnum bænda fengu sömu meðferð og túnin sem þær voru í en uppskera var ekki mæld, einungis lifun. Tilraunirnar stóðu frá 2009 til 2013. Upplýsingum um áburð, slátt, beit og svellamyndun var safnað hjá bændunum.
  4. Í þessum tilraunum reyndi mikið á svellþol yrkjanna en síður á kuldaþol. Sjö tilraunir lágu undir svellum lengur en í tvo mánuði. Þar sem svell lágu lengi á tilraununum má skipta grastegundunum í þrjá hópa eftir lifun: Vallarsveifgras, hálíngresi og vallarfoxgras voru með mesta þekju, um 30%. Í næsta hópi voru hávingull og axhnoðapuntur með 10 og 13% þekju. Í þriðja hópnum voru vallarrýgresi og tágavingull með innan við 2% þekju. Smárinn gæti verið í miðhópnum. Mikill yrkjamunur kom fram í vallarfoxgrasi og vallarsveifgrasi hvað svellþol varðar en Knut vallarsveifgras var með mesta þekju allra yrkja (50%) í svellaflokknum og Snorri vallarfoxgras með 41%.
  5. Þar sem svell lágu ekki yfir var lítill munur í lifun hjá vallarfoxgrasi, hálíngresi, vallarsveifgrasi, hávingli og axhnoðapunti. Þessar tegundir voru með 50-70% þekju í lok tilraunanna. Vallarrýgresi og tágavingull voru mun lakari með um 17% þekju að meðaltali. Í þessum hópi var einnig mikill yrkjamunur en Knut og Snorri standa enn efstir með 85% og 78% þekju. Þekja smára var meiri þar sem svell lágu lítt eða ekki, sérstaklega hvítsmára (20%). Þekja rauðsmára og túnsmára var hins vegar aðeins um 5% í þessum hópi við lok tilraunanna. Refasmári lifði ekki fyrsta veturinn á Korpu en lifði ágætlega fyrsta veturinn á Möðruvöllum og þekjan var 5% eftir þrjá vetur.
  6. Mikill breytileiki var í endingu sáðgresis eftir tilraunastöðum en fram undir síðasta veturinn mátti sjá mjög fallegar tilraunir í öllum landshlutum. Tilraunirnar á Vesturlandi voru að jafnaði með mesta þekju en ekki skildi milli hinna landshlutanna fyrr en síðasta veturinn en þá var mikið kal, einkum á Norður- og Austurlandi. Þekja sáðgresis fór að meðaltali minnkandi eftir því sem lengra dró frá sjó, enda voru tilraunir í innsveitum að jafnaði hærra yfir sjó en aðrar.
  7. Borin var saman þekja í tilraunum eftir rúmþyngd jarðvegsins en ekki var hægt að merkja neinn mun. Hins vegar hafði sýrustig áhrif þannig að þekja sáðgresis var meiri þar sem sýrustig var hærra, sérstaklega átti það við smárann.
  8. Uppskeran var mæld í þrjú ár á Korpu en tvö ár á Möðruvöllum. Tvíslegið var öll árin. Meðaluppskera grasyrkjanna þessi fimm ár var á bilinu 66-86 hkg þe./ha. Hávingull og axhnoðapuntur gáfu mesta uppskeru um 84 hkg þe./ha. Rýgresi og tágavingull voru með um 80 hkg þe./ha, vallarfoxgras með 76, hálíngresi 74 og vallarsveifgras 71 hkg þe./ha. Knut vallarsveifgras sýndi mesta vetrarþol grasanna í tilraununum en gaf minnsta uppskeru 66 hkg þe./ha. Mesta uppskeru gaf Inkeri hávingull, 86 hkg þe./ha. Rauðsmári gaf 56 hkg þe./ha, hvítsmári gaf tæplega 48 en túnsmári 45. Sami áburður var borinn á smárann og grasið á Möðruvöllum um 125 kg N/ha, en á Korpu voru 150 kg N/ha borin á grasið en 80 kg N/ha á smárann. Meðaluppskera grasyrkjanna í þessum tilraunum var 78 hkg þe./ha en 53 hkg þe./ha hjá smáranum. Þetta er meiri munur en fengist hefur í ýmsum öðrum tilraunum þar sem smárablöndur hafa jafnvel verið með meiri uppskeru en gras í hreinrækt, þótt smárablöndur fengju þá minni áburð en grastegundir hreinar. Hlutfall seinni sláttar af heildaruppskeru var á bilinu 25-40%, minnst hjá vallarfoxgrasi.
  9. Yrkjamunur var töluverður í uppskeru hjá vallarfoxgrasi og vallarsveifgrasi. Rakel var með mesta uppskeru vallarfoxgrasyrkjanna en Noreng lakasta. Lidar, Switch og Nuutti koma næst Rakel en þó 5 hkg á eftir. Snorri var næst lægstur. Ekki var mikill uppskerumunur milli smárayrkja.
  10. Þekja var metin í fjórum tilraunum sumarið 2014. Vallarfoxgras hafði gefið mikið eftir frá árinu áður en aðrar tegundir minna.

Birtist í: 
 • Rit LbhÍ nr. 53
ISSN: 
 • 1670-5785
Samþykkt: 
 • 17.4.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20810


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
rit_lbhi_nr.__53_tilbuid.pdf2.84 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna