is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20873

Titill: 
  • Mótefnalitanir á nýrnakrabbameinum. Þróun aðferðar með PAX8 mótefni og greiningarhæfni þess borin saman við mótefnin CD10, RCCma og vimentin
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Nýrnakrabbamein telja um 3% allra illkynja æxla á Íslandi. Nýrnafrumukrabbamein af tærfrumugerð er algengasta undirgerð þeirra. Algengt er að við greiningu hafi meinvörp myndast og minnkar það batahorfur sjúklinga. Til að staðfesta gerð meins í nýra og uppruna meinvarpa þaðan getur verið hjálplegt að nota mótefnalitanir. Hingað til hafa mest verið notuð mótefnin CD10, vimentin og renal cell carcinoma marker (RCCma) sem öll eru jákvæð í meirihluta tærfrumukrabbameina nýrna. RCCma hefur ekki þótt vera nógu næmt og þá sérstaklega til greiningar meinvarpa. Nú er komið á markað paired box gen (PAX) 8 mótefni sem vonast er til að gefi betri raun. Markmið þessarar rannsóknar var að þróa aðferð með PAX8 mótefni til notkunar á meinafræðideild Landspítala (LSH) og bera næmi þess saman við næmi mótefnanna CD10, RCCma og vimentin. Sértækni mótefnanna var ekki metin í rannsókninni.
    Notuð voru 40 tilfelli tærfrumukrabbameina í nýrum úr lífsýnasafni LSH. Prófaðar voru tvær mismunandi þynningar á PAX8 mótefni fyrir mótefnalitanir og heppilegt viðmiðunarsýni fyrir það fundið. Öll 40 sýnin voru lituð með hefðbundinni hematoxilyn og eosin (HE) litun og mótefnalituð með fjórum mótefnum (CD10, PAX8, RCCma og vimentin) þar sem notuð var stöðluð tveggja þrepa fjölliðu aðferð. Sýni voru metin með smásjárskoðun með tilliti til styrks og dreifingar litunar í æxlisvef.
    Prófun á PAX8 mótefni sýndi að þynning mótefnisins 1:20 gefur sterka og jafnt dreifða litun bæði í eðlilegum nýrnavef og æxlisvef. Mótefnalitun með CD10 sýndi að 90% æxla tjá CD10, hlutfall jafnt milli frummeina og meinvarpa en tjáning þess er þó sterkari í frummeinum. Tjáning PAX8 er í 95% frummeina en í 80% meinvarpa, litun með PAX8 er sterkari og jafnt dreifðari í meinvörum en frumæxlum. RCCma er jákvætt í 62,5% tilfella, 70% frummeina og 55% meinvarpa, og tjáning er sterkari í frummeinum en meinvörpum. Vimentin er tjáð í 65% frumæxla en í öllum meinvörpum og er litun í flestum tilfellum sterk og vel dreifð.
    PAX8 mótefnið er heppilegt að nota í þynningunni 1:20 og eðlilegt nýra hentar vel sem viðmiðunarsýni. Næmi fyrir tærfrumukrabbameinum nýrna er mest hjá mótefnunum CD10, PAX8 og vimentin en minnst hjá RCCma. Samkvæmt öðrum rannsóknum er sértækni RCCma aftur á móti mest, þar á eftir kemur PAX8 og sértæknin er minnst hjá CD10 og vimentin. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna því að til að fá sem besta greiningu þessara æxla gefi líklega góða raun að nota öll fjögur mótefnin saman því þau vega hvert annað upp þegar kemur að næmi og sértækni hvers og eins.

Samþykkt: 
  • 2.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20873


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Helga Sigrún Gunnarsdóttir.pdf1.68 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna