is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20898

Titill: 
 • Aðkoma lögreglu að heimilisofbeldi
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Heimilisofbeldi hefur verið í brennidepli samfélagsumræðunnar undanfarið. Fjölmiðlar hafa að mestu fjallað um málefnið út frá reynslu brotaþola en þó einnig beint sjónum að starfi lögreglu og dómstóla. Umræðuna má m.a. rekja til nýrra verklagsreglna ríkislögreglustjóra um skráningu og meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu sem tóku gildi þann 2. desember 2014 og átaks- og samstarfsverkefna ákveðinna lögregluembætta og viðkomandi sveitarfélaga sem hleypt hefur verið af stokkunum í samræmi við reglurnar. Verkefnin hafa það markmið að bæta meðhöndlun heimilisofbeldismála hjá lögreglu í samstarfi við félagsþjónustur og barnaverndarnefndir, hvað varðar skráningu mála, verklag á vettvangi, eftirfarandi rannsókn og aðstoð við brotaþola, gerendur og börn.
  Vitundavakningu á stöðu heimilisofbeldismála hér á landi má þó rekja til grasrótarverkefnis lögreglustjórans á Suðurnesjum sem hófst þann 1. febrúar 2013. Eftir ítarlega skoðun hjá embættinu kom í ljós að víða var pottur brotinn í meðferð embættisins á heimilisofbeldismálum. Til þess að bregðast við þessu vandamáli var hafið samstarf við félagsþjónustur sveitarfélagsins og stefnt að því að taka heimilisofbeldismál fastari tökum og meðhöndla þau af meiri alvöru en áður. Verkefnið reyndist vel og var byggt á því við gerð verklagsreglna ríkislögreglustjóra og þannig stefnt að því að verklagið yrði tekið upp hjá öllum lögregluembættum landsins.
  Ritgerðin fjallar um aðkomu lögreglu að heimilisofbeldismálum, bæði hvað varðar verklag við meðferð slíkra mála og til hvaða úrræða lögregla getur gripið til að koma í veg fyrir heimilisofbeldi. Í upphafi verður fjallað um inntak heimilisofbeldis og um þá viðhorfsbreytingu sem hefur átt sér stað í samfélaginu frá því að þessi tegund ofbeldis var fyrst dregin upp á yfirborðið á síðari hluta 20. aldar.
  Þá verður í þriðja kafla skoðað hvernig skráningu þessara mála er háttað hjá lögreglu, hvaða aðilar fara með rannsókn slíkra mála og hvernig fyrstu viðbrögðum lögreglu á vettvangi er háttað. Í fjórða kafla verður sjónum beint að heimild lögreglu til að beita handtöku vegna heimilisofbeldis, hvaða lagaheimildir liggja þar að baki og hvort framkvæmd sé, og hafi verið, í samræmi við löggjöf.
  Þann 30. júní 2011 tóku gildi lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 og var þar með í fyrsta skipti kveðið á um heimild til að vísa ofbeldismanni af heimili í íslenskum lögum. Ákvæði um nálgunarbann höfðu hins vegar verið í lögum í rúman áratug. Í fimmta kafla verður fjallað um beitingu nálgunarbanns og brottvísunar af heimili í heimilisofbeldismálum, lagagrundvöllur úrræðanna verður skoðaður sem og hvort lagaákvæði um nálgunarbann hafi tekið breytingum frá gildistöku þeirra. Fjallað verður um skilyrði fyrir beitingu úrræðanna og ályktanir dregnar af dómaframkvæmd frá því að lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 tóku gildi. Þá verður einnig gerð könnun á réttarstöðunni í nærrænum rétti.
  Í sjötta kafla verður að lokum fjallað um þær aðgerðir sem lögreglan getur gripið til að fyrirbyggja frekara heimilisofbeldi og hvernig samstarf við aðra, sem á einn eða annan hátt koma að meðferð heimilisofbeldismála, geti þar spilað mikilvægt hlutverk.

Samþykkt: 
 • 4.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20898


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
RITGERÐ-Viktoría.pdf1.16 MBLokaður til...17.05.2087HeildartextiPDF