is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20905

Titill: 
 • Um vernd tjáningarfrelsis og bann við hatursáróðri
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Tjáningarfrelsið er talið til hinna allra mikilvægustu mannréttinda. Það er einn af hornsteinum lýðræðislegs þjóðfélags. Í tjáningarfrelsinu felast ekki aðeins mjög dýrmæt réttindi fyrir einstaklinga, heldur er frelsið nauðsynleg forsenda lýðræðislegs þjóðfélags. Tjáningarfrelsið er þó langt frá því að vera algert og er margvíslegum takmörkunum háð. Í þessari ritgerð er fjallað um þá takmörkun á tjáningarfrelsinu sem felst í banni við hatursáróðri (e. hate speech). Er ítarlega farið yfir framkvæmd hjá Mannréttindadómstól Evrópu auk þess sem farið er yfir íslenska réttarframkvæmd með hliðsjón af danskri réttarframkvæmd.
  Í ritgerðinni er fyrst skoðað hvernig hugtakið hatursáróður hefur verið skilgreint. Ekki er til nein alþjóðlega viðurkennd skilgreining á hugtakinu. Í ýmsum alþjóðlegum og svæðisbundnum samþykktum má þó finna ákvæði sem skipta máli þegar hugtakið er skoðað, og er farið yfir þau í 2. kafla ritgerðarinnar. Þær alþjóðlegu samþykktir sem fjallað er um eru meðal annars Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamingurinn um afnám alls kynþáttamisréttis. Einnig er farið yfir samþykktir sem orðið hafa til með samvinnu Evrópuríkja, en þar er áhrifamestur Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE).
  Í 3. kafla er farið yfir þær reglur sem myndast hafa í framkvæmd hjá Mannréttindadómstól Evrópu í málum sem varða hatursáróður. Dómstóllinn hefur ekki skilgreint hugtakið hatursáróður sérstaklega. Hann hefur fremur kosið að skoða aðstæður í hverju máli fyrir sig og bindur sig því ekki við eina skilgreiningu á hugtakinu. Í málum sem varða hatursáróður hefur dómstóllinn hingað til aðallega farið tvær leiðir. Dómstóllinn hefur í fyrsta lagi beitt ákvæði 10. gr. MSE um tjáningarfrelsið, nánar tiltekið 2. mgr. ákvæðisins, þar sem finna má skilyrði fyrir því að takmarka megi tjáningarfrelsið. Þá fer dómstóllinn yfir hvort skilyrðin sem ákvæðið kveður á um séu uppfyllt, þ.e. að takmörkunin sé byggð á lögum, réttlætist af ákveðnu markmiði og sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í ritgerðinni er farið ítarlega yfir þá þætti sem dómstóllinn lítur til hverju sinni við mat sitt á því hvort takmörkun sé réttmæt samkvæmt 2. mgr. 10. gr. MSE. Hér er um að ræða þætti eins og tilgang tjáningar, innihald hennar og samhengi. Í málum sem varða hatursáróður hefur dómstóllinn í öðru lagi beitt 17. gr. sáttmálans, en ákvæðið kveður á um bann við misnotkun réttinda sem njóta verndar í Mannréttindasáttmálanum. Ákvæðinu hefur verið beitt í ákveðnum málum, þar á meðal málum þar sem um er að ræða afneitun á ákveðnum sögulegum staðreyndum. Samhliða umfjöllun um þessar tvær leiðir Mannréttindadómstólsins er dómaframkvæmd hans rakin með tilliti til þeirra þátta sem dómstóllinn lítur til hverju sinni.
  Í 4. kafla ritgerðarinnar er farið yfir íslenska réttarframkvæmd. Þar ber hæst ákvæði 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem, líkt og 10. gr. MSE, kveður á um tjáningarfrelsi og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að takmarka megi slíkt frelsi. Í kjölfarið er farið yfir ákvæði í almennri löggjöf sem kveða á um bann við hatursáróðri. Er þar meðal annars farið ítarlega yfir ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar á meðal uppruna ákvæðisins, breytingar í gegnum tíðina og dómaframkvæmd, en aðeins einu sinni hefur verið sakfellt fyrir brot gegn ákvæðinu. Hliðsjón er höfð af danskri réttarframkvæmd. Í 5. kafla ritgerðarinnar eru loks helstu niðurstöður hennar dregnar saman.

Samþykkt: 
 • 4.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20905


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerðin - Skemman.pdf1.11 MBLokaður til...05.05.2050HeildartextiPDF