is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20923

Titill: 
 • Að bera kennsl á sakborninga. Sakbendingaraðgerðir í ljósi réttarsálfræðilegra rannsókna á áreiðanleika vitnisburða
 • Titill er á ensku Identifying the culprit. Line-up procedures in the light of psychological research on eyewitness identification
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Eitt það versta sem hent getur í samfélagi sem kennir sig við réttarríki er að saklaus maður sé sakfelldur og dæmdur til að þola refsingu. Út frá sjónarmiðum réttarríkis hefur það verið talið skárra að tíu sekir menn gangi lausir en að saklaus maður sitji bak við lás og slá. Það liggur í hlutarins eðli að sakamálarannsóknum er oftast beint að atburðum fortíðarinnar. Lögreglan reynir að komast að hinu sanna um hvað hafi gerst og hvort um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða. Ef svo er, þá er allt kapp lagt á að finna sökudólginn. Framburðir vitna geta, eftir atvikum, haft mikla þýðingu við að upplýsa afbrot. Þegar afbrotamaðurinn er óþekktur, það liggur jafnvel enginn undir grun, er framburður vitnis oft það eina sem leitt getur lögregluna áfram í leit að hinum seka. Þau úrræði sem koma þá að notum eru sak- og myndbending, í sumum tilvikum myndfletting. Þegar slíkum aðferðum er beitt er aðalsönnunargagnið í raun minni vitnisins, ef svo má að orði komast. Hvaða upplýsingar minnið hefur að geyma, hvernig þær eru geymdar og hvernig þeim er komið á framfæri skiptir því höfuðmáli fyrir niðurstöður sakbendingarinnar. Nánar tiltekið ræður úrslitum í þessu samhengi hversu áreiðanlegt minnið er.
  Innan sálfræðinnar hafa réttarsálfræðingar rannsakað minnið, áreiðanleika þess og framburði vitna með vísindalegum aðferðum. Lögfræðin hefur einnig fengist við framburði vitna, en þó fyrst og fremst með skipulagðri umfjöllun um þær réttarreglur sem gilda um þetta efni svo og reglur um sönnun. Þessir tveir fræðiheimar hafa því báðir fengist við framburði vitna.
  Meginmarkmið þessarar ritgerðar er að meta gildandi rétt og réttarframkvæmd sakbendingaraðgerða í ljósi niðurstaðna réttarsálfræðilegra rannsókna um áreiðanleika vitnisburðar. Nánar tiltekið verður leitast við að svara þeirri spurningu hvort niðurstöður reynslurannsókna sálfræðinnar endurspeglist í íslensku regluverki, framkvæmd lögreglu og dómaframkæmd um sakbendingaraðgerðir. Þannig er markmið ritgerðarinnar einnig að kanna hvort réttarsálfræðilegar rannsóknir geti nýst til þess að betrumbæta framkvæmd sakbendinga svo að bestu mögulegu aðferðum sé beitt og niðurstöður verði áreiðanlegri en ella.
  Ritgerðinni er skipt í þrjá efnishluta. Í fyrsta hluta hennar er leitast við að lýsa réttarsálfræðilegum rannsóknum á minni sjónarvotta og fara yfir það með skipulögðum hætti hvaða þættir geta haft áhrif á áreiðanleika framburða vitna. Í öðrum hluta er gildandi réttur um sakbendingaraðgerðir rannsakaður með hefðbundinni lögfræðilegri aðferð. Leitast er við að gera grein fyrir því með hlutlausum eða lýsandi hætti hvaða réttarreglur gilda um úrræðin, einkum með vísan til þess hvaða gildi úrræðin hafa sem sönnunargögn fyrir dómi. Með greiningu á dómum Hæstaréttar er þannig reynt að varpa ljósi á stöðu sakbendingaraðgerða sem sönnunargagna og hvort ágallar á framkvæmd úrræðanna leiði til sakfellingar eða sýknu. Í þriðja og síðasta efnishluta ritgerðarinnar eru reglur og réttarframkvæmd um sakbendingaraðgerðir teknar til gagnrýninnar skoðunar í ljósi þeirra réttarsálfræðilegu rannsókna sem raktar voru í fyrsta hluta ritgerðarinnar. Kannað verður hvort nægur skilningur sé á þeim atriðum sem sálfræðin hefur rannsakað þegar horft er til gildandi reglna og framkvæmdar. Þá verður einnig lagt mat á það hvaða gallar á framkvæmd sakbendingaraðgerða ættu að leiða til þess að sakbendingaraðgerð teljist þýðingarlaus á grundvelli reynslurannsókna sálfræðinnar. Dómaframkvæmd og reglur um sak- og myndbendingu, sem rakin eru í öðrum hluta, verða skoðaðar með hliðsjón af þessum göllum og afstaða tekin til þess hvort hafna hefði átt sakbendingaraðgerðum sem þýðingarlausum í einstökum dómum. Að lokum verður rætt hvort ástæða sé til að endurskoða gildandi reglur á grundvelli þeirra ályktana sem dregnar hafa verið í umfjöllun síðasta hlutans.
  Lykilorð: Sakamálaréttarfar, Réttarsálfræði, Rannsóknir sakamála

Samþykkt: 
 • 4.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20923


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð KJ.pdf1.03 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
SKM_C45818092409180.pdf41.82 kBLokaðurYfirlýsingPDF