is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20927

Titill: 
 • Siðferðileg álitamál tengd kaupum og sölum á nýrum
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Alvarleg bilun lífsnauðsynlegra líffæra er ört vaxandi heilbrigðisvandamál. Við þær aðstæður getur ígræðsla líffæris verið besta meðferðarúrræðið sem völ er á. Gríðarlegar framfarir hafa orðið á sviði líffæraígræðslna en framboð meðferðarinnar takmarkast af skorti á líffærum til ígræðslu. Ein af hugmyndunum til lausnar þeim vanda er að lögleiða opinn markað með líffæri.
  Í þessari ritgerð er fjallað um siðferðileg álitaefni tengd kaupum og sölum á nýrum og leitast er við að svara því hvort slík viðskipti séu siðferðilega verjandi. Gert er ráð fyrir stýrðum markaði þar sem nýrnagjafi nýtur góðrar heilbrigðisþjónustu og fullnægjandi eftirlits. Helstu rök sem færð hafa verið með og á móti slíkum viðskiptum eru tekin til skoðunar.
  Helstu rökin með því að leyfa markað með nýru eru að slíkur markaður eykur framboð á nýrum og bætir þar með lífsgæði sjúklinga með lokastigs nýrnabilun og bjargar mannslífum. Auk þess eru tínd til svokölluð samkvæmnisrök, rök sem byggja á grundvallarreglunni um sjálfræði, ásamt því að frjáls markaður útrýmir svörtum markaði með nýru.
  Ýmis mótrakanna eru nátengd, það er að markaður með nýru stuðlar að hlutgervingu, markaðsvæðingu mannslíkamans og misnotkun. Gengið er út frá þeirri forsendu, að alla hluti megi verðleggja, gildi þeirra má umreikna í peninga og að ekkert tapast af innra gildi við þann útreikning. Ákveðin áhætta er fólgin í því að fara í aðgerð, markaður með líffæri dregur úr fórnfýsi eða góðmennsku í heiminum, ásamt því að kaup og sala líffæra stríðir gegn markmiðum læknisfræðinnar. Þá eru rök þess efnis að sala, sem og gjöf á nýrum, leggur kröfu á fjölskyldumeðlimi nýrnaveikra um að fórna nýra, í raun óháð því hvað þeir sjálfir vilja. Síðast en ekki síst eru það rök tengd kröfunni um upplýst, sjálfviljugt samþykki og hættunni á þvingun eða ígildi þvingunar, sem um leið ógildir samþykkið.
  Meginniðurstaðan er sú, að stýrður markaður gæti aukið framboð á nýrum og bjargað mannslífum. Það eru gild rök fyrir því að leyfa markað með nýru. Hins vegar væri hætta á misnotkun þeirra sem minna mega sín og efast mætti um gildi upplýsta samþykkisins fyrir aðgerðinni. Hagsmunir nýrnasjúkra og ættingja þeirra eru ríkir en með þeim er þó ekki hægt að réttlæta misnotkun á þeim sem mega sín lítils.

Athugasemdir: 
 • Titill á kápu prentaðs eintaks: Siðferðileg álitaefni tengd kaupum og sölum á nýrum
Samþykkt: 
 • 4.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20927


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA-ThorgunnurHjaltad.pdf588.02 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna