is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20957

Titill: 
 • Áhrif tilskipunar 2014/104/EU á rétt einstaklinga og lögaðila til skaðabóta vegna samkeppnislagabrota
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Samkeppnisréttur er ung og lifandi fræðigrein sem tekið hefur miklum breytingum í gegnum tíðina í takt við þróun efnahagslífsins og pólitískra viðhorfa. Hann samanstendur af reglum sem hafa það að markmiði að vernda samkeppni og hámarka þannig velferð neytenda. Með reglunum er lagt bann við samkeppnishamlandi hegðun sem hefur skaðleg áhrif á samfélagið.
  Brot á samkeppnislögum eru til þess fallin að raska heilbrigðri samkeppni og því verður að vera hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana þegar fyrirtæki gerast brotleg gegn þeim. Mögulegt er að bregðast við samkeppnislagabrotum bæði með opinberum- og einkaréttarlegum úrræðum. Innan Evrópusambandsins er meðferð opinberra úrræða í höndum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og samkeppnisyfirvalda aðildarríkjanna. Einkaréttarlegum úrræðum er hins vegar beitt af einkaaðilum fyrir dómstólum aðildarríkja þar sem tjónþolar samkeppnislagabrota geta höfðað einkamál og freistað þess að fá meint tjón sitt bætt. Hingað til hafa opinber úrræði spilað mun stærra hlutverk við framfylgni samkeppnisreglna innan Evrópusambandsins en síðastliðin ár hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins unnið markvisst að því að efla beitingu einkaréttarlegra úrræða fyrir dómstólum. Góð samvinna á milli opinberra úrræða og einkaréttarlegra eykur varnaðaráhrif gegn samkeppnislagabrotum og styrkir skilvirkni samkeppnisreglna. Innan Evrópusambandsins hefur megináhersla verið lögð á að auðvelda meintum tjónþolum samkeppnislagabrota að sækja skaðabætur til tjónvalda sinna.
  Þann 26. nóvember 2014 var lögfest tilskipun 2014/104/EU um skaðabætur vegna brota gegn samkeppnisreglum Evrópusambandsins og aðildarríkja. Markmiðið með ritgerðinni er að fjalla um meginatriði tilskipunarinnar og þá forsögu sem leiddi til lögfestingu hennar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur á seinustu árum greint ýmsar hindranir sem standa í vegi fyrir greiðum aðgangi tjónþola samkeppnislagabrota að skaðabótum og er stefnt að því með lögleiðingu tilskipunarinnar að afnema eða draga úr þeim hindrunum.
  Í 2. kafla ritgerðarinnar verður fjallað um almennt hlutverk og þróun samkeppnisréttar ásamt því að gera grein fyrir samkeppnisreglum Evrópusambandsins. Í 3. kafla verður umfjöllun um þau opinberu úrræði sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samkeppnisyfirvöldum aðildarríkja er heimilt að beita. Í 4. kafla eru skaðabætur meginviðfangsefnið og verða reifaðir helstu úrskurðir Evrópudómstólsins sem lúta að skaðabótum vegna samkeppnislagabrota, ásamt því að fjalla um íslenska dómaframkvæmd. Einnig verður fjallað um þær aðgerðir sem hafa átt sér stað innan Evrópusambandsins til styrkingar á bótarétti tjónþola. Í 5. kafla verður umfjöllun um hvernig opinber úrræði samkeppnisyfirvalda og framkvæmdastjórnar ESB vinna saman með regluverki um skaðabætur vegna samkeppnislagabrota. Í 6. kafla verður gerð nákvæm grein fyrir helstu ákvæðum tilskipunar 2014/104/EU og þeim markmiðum sem stefnt er að með lögleiðingu hennar. Einnig verður skoðuð réttarstaða tjónþola í skaðabótamálum vegna samkeppnislagabrota innan íslensks réttar í samræmi við reglur tilskipunarinnar. Að lokum verða niðurstöður dregnar saman í 7. kafla.

Samþykkt: 
 • 5.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20957


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forsíða.pdf165.03 kBLokaður til...01.05.2045ForsíðaPDF
Áhrif tilskipunar 2014:104:EU á rétt einstaklinga og lögaðila til skaðabóta vegna samkeppnislagabrota.pdf832.3 kBLokaður til...01.05.2045MeginmálPDF