Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/20962
Frá fyrstu tíð hafa munir gengið kaupum og sölu manna á milli og eru samningar þess efnis grundvöllur alls viðskiptalífs. Með tíð og tíma hefur viðskiptalífið þróast og er í dag orðið mun flóknara og margbreytilegra heldur en það var áður fyrr og er kauparéttur alla jafna stór fræðasvið í vestrænum ríkjum. Þróun kauparéttar helst í hendur við breytta þjóðfélags- og viðskiptahætti en þrátt fyrir breytingar á þeim sviðum eru ákveðnar grundvallarreglur sem hafa lítið sem ekkert breyst og eiga sér ákveðin sess í settri löggjöf ríkja sem og sem óskrifaðar meginreglur.
Með tilkomu flóknari sem og umfangsmeiri viðskipta hefur samfélagið fundið fyrir ákveðinni þörf til að verja sig gagnvart áhættum sem geta verið til staðar í vissum tegundum viðskipta. Sú aðferð sem stóð upp úr er framkvæmd áreiðanleikakannana og kemur hún upphaflega úr engilsaxneskum rétti (e. Common law). Þrátt fyrir að réttarreglurnar komi úr öðru réttarkerfi hefur meginlandsréttur (e. Civil law) aðlagað þær að sínu kerfi og hafa Norðurlandaþjóðirnar ekki látið sitt eftir liggja.
Framkvæmd áreiðanleikakannana var upphaflega viðskiptalegs eðlis og er það í meginatriðum enn í dag. Með tímanum hafa þó lögfræðingar hægt og rólega verið að færa sig inn á þetta svið og eru þær í dag ekki eingöngu viðskiptalegs eðlis heldur einnig lögfræðilegar. Þrátt fyrir aukningu á aðkomu lögfræðinga er þó enn allur gangur á því hver framkvæmir könnun.
Í norrænum rétti skipar samningsfrelsið stóran sess og er það ein af grundvallarreglum hans. Nútíma kauparéttur grundvallast allur á þessari meginreglu en það sést m.a. í 3. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup (hér eftir lkpl.). Er það því á færi hvers sem er að semja um nánast hvað sem er, svo lengi sem um löglegan gerning er að ræða, og á sama hátt getur hvor aðili um sig látið framkvæma áreiðanleikakönnun vegna viðskiptanna.
Í þessari ritgerð er ætlunin að fjalla um réttarreglur kauparéttar hvað kaup og sölu á fyrirtækjum og verðbréfum varðar með sérstakri áherslu á áreiðanleikakannanir og hvernig þær falla að íslenskum rétti. Efnisskipan umfjöllunar mun vera með þeim hætti að fyrst verður vikið að lykilhugtökum og reglum þar sem farið verður í grundvallarhugtök kauparéttar og þær réttarreglur sem þar gilda. Þar sem tilgangur áreiðanleikakannana er að takmarka áhættu á kaupum er tilefni til að fjalla sérstaklega um galla á greiðslum en tilgangur þeirrar umfjöllunar er að varpa ljósi á þær meginreglur sem gilda í þeim efnum og hvernig þær geta haft áhrif á stærri kaup. Sjónum verður síðan beint að upplýsingaskyldu seljanda sem og aðgæsluskyldu kaupanda en þessi tvö hugtök eru grundvöllur áreiðanleikakönnunar. Umfjöllunin er almenns eðlis en er mikilvæg til að varpa ljósi á afstöðu kauparéttar til framkvæmdar áreiðanleikakannana.
Í síðari hluta ritgerðarinnar verður sjónum sérstaklega beint að áreiðanleikakönnunum en fjallað verður um uppruna þeirra, framkvæmd og hvaða áhrif þær geta haft á kaup og sölu. Ætlunin er að varpa ljósi á hvernig réttarreglur kauparéttarins samrýmast þessari nýju framkvæmd í viðskiptalífinu. Að auki verður því velt fyrir hvaða áhrif hún hefur sem og ábyrgð þá sem henni getur fylgt.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Skemma - skil.pdf | 866,48 kB | Locked Until...2025/05/05 | Heildartexti |