is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20976

Titill: 
 • Áhrif týmóls á bakteríur úr miðeyrnasýkingum. Þróun mæliaðferðar
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Miðeyrnabólga er algengt vandamál meðal ungra barna, en við þriggja ára aldur hafa 50-85% barna fengið miðeyrnabólgu að minnsta kosti einu sinni. Ung börn eru í meiri áhættu á miðeyrnabólgum vegna stöðu kokhlustar og ófullþroskaðs ónæmiskerfis. Bæði bakteríur og veirur geta verið sýkingavaldar, en meðal algengustu baktería eru Streptococcus pneumoniae (pneumókokkar) og Haemophilus influenzae. Langflestar miðeyrnabólgur ganga yfir án inngrips á 2-14 dögum, en í sumum tilfellum þarf að meðhöndla þær með sýklalyfjum. Ofnotkun sýklalyfja getur hins vegar leitt til minnkaðs sýklalyfjanæmis, sem er orðið vandamál meðal bæði pneumókokka og H. influenzae.
  Bakteríudrepandi eiginleikar ilmkjarnaolía hafa lengi verið þekktir. Týmól er efni sem einangrað er úr ilmkjarnaolíum bergmyntu og basilíku. Efnið veldur röskun á frumuhimnu baktería, sem veldur því að hún veiklast og á endanum drepst bakterían. Bakteríudrepandi áhrifin eru háð styrk og virknitíma týmólsins. Þar sem týmól er rokgjarnt efni kemst það í gegnum hljóðhimnu á gufuformi. Týmól hefur verið notað með góðum árangri til meðhöndlunar rotta með miðeyrnabólgur. Þessar niðurstöður vekja von um að hægt sé að meðhöndla eyrnabólgur í gegnum eyrnagöng og minnka þannig sýklalyfjanotkun yngstu barnanna.
  Markmið rannsóknarinnar voru að þróa aðferð til að prófa áhrif týmólgufa á pneumókokka og H. influenzae og meta með aðferðinni þann styrkleika og meðhöndlunartíma sem nauðsynlegur er til þess að hafa áhrif á vöxt bakteríanna. Rannsökuð voru áhrif týmóls, þynntu í etanóli, jarðhnetuolíu og vaselíni, á pneumókokka og H. influenzae, bæði í vexti á agarskálum og í vökvarækt. Týmól var aldrei látið snerta bakteríuræktir, heldur látið gufa upp úr burðarefni.
  Áhrif týmólgufa voru metin á pneumókokkastofna af hjúpgerðum 19F, 23F, 6A, 3 og 14 og hjúplausa H. influenzae. Stofnarnir voru prófaðir með gufum upp úr 25-30 mg af 20% týmóli í vaselíni á ræktunarskálum, metið með mælingu á hindrunarsvæði, og meðhöndlun með 25-30 mg af 20% týmóli á einstökum brunnum í míkrótíterbakka, metið með líftalningu.
  Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þvermál hindrunarsvæðis á skálum var 27-43 mm, minnst hjá pneumókokkum af hjúpgerðum 19F og 6A, mest hjá hjúplausum H. influenzae. Dráp í svifvexti eftir meðhöndlun með 20% týmóli í vaselíni í 30 mínútur var 88,38-99,99%. Styrkur týmóls í ræktinni mældist 326 mg/l. Minnst áhrif sáust á pneumókokkastofna af hjúpgerð 3, sem myndar þykkan fjölsykruhjúp. Ekki fundust tengsl milli dráps með týmóli og getu bakteríustofnanna til örveruþekjumyndunar. Ekki sáust áhrif eftir meðhöndlun í minna en 30 mínútur.
  Rannsókn á frumgerðum eyrnatappa sýndi að hægt var að drepa 59,7-99,9997% baktería í vökvarækt eftir meðhöndlun í 30 mínútur. Mest dráp sást eftir meðhöndlun með frauðeyrnatöppum með polypropylenröri í miðju. Líftalningar úr prófun á frumgerðum eyrnatappa voru með stórt staðalfrávik og endurtaka þyrfti þær til þess að fá tölfræðilega marktækar niðurstöður.
  Þróa þyrfti fleiri gerðir eyrnatappa með tilliti til áhrifa týmóls á bakteríur úr miðeyrnabólgum. Einnig þyrfti að rannsaka áhrif týmólgufa á örveruþekjur og mögulega vernd fjölsykruhjúps baktería fyrir týmóli.

Samþykkt: 
 • 5.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20976


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Diplóma-KatrínRúnJóhannsdóttir.pdf1.21 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna