Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20980
Túlkunarvenjur í tengslum við tölvuleiki hafa sögulega séð verið af skornum skammti í samanburði við sambærilega miðla á borð við bækur eða kvikmyndir. Þetta sést á því að leikir hafa yfirleitt ekki verið túlkaðir í leit að einhverri merkingu eða öðru sem ætti að geta hreyft við spilaranum á markbæran hátt. Þvert á slíkar viðtökuhefðir miðar þessi ritgerð hins vegar að því að þróa túlkunaraðferð fyrir leikjagreiningu sem getur aukið við fjölbreytileika skilnings fólks á miðlinum, varpað ljósi á hvernig leikir geta tengst öðrum menningarkimum ásamt því að benda á hvernig hugmyndir fólks um leiki eru ekki sjálfgefnar. Stuðst verður við ferðahugtakið og er ætlunin að athuga hvernig það, ásamt fræðilegum hugmyndum um ferðalög geta mótað eða haft áhrif á hvernig tölvuleikir eru túlkaðir. Með því að beina túlkun leikja í þennan ákveðna farveg er tiltekin gerð merkingarmótunar skoðuð ásamt mögulegri upplifun spilara sem erfitt er að nálgast með hugtakanotkun af öðru tagi.
Sýnt er fram á hvernig spilarinn getur átt í samskiptum við stafræna veruleika á sambærilegan hátt og ýmsar ferðahefðir gera ráð fyrir. Slík nálgun gerir ráð fyrir því að spilarinn geti myndað markbær tengsl við leikheiminn líkt og búist er við að ferðalög móti reynsluheim þeirra sem ferðast. Tölvuleikir eru þó ekki eini miðillinn sem hægt er að tengja við ferðahugtakið þar sem til dæmis bækur og kvikmyndir eiga vissa forsögu með hugtakinu. Með samanburði við aðra miðla er reynt að greina stöðu leikjamiðilsins þegar kemur að ferðalögum og jafnvel marka honum ákveðna sérstöðu. Sú sérstaða byggir þá helst á hugmyndinni um stafrænt rými sem gerir spilaranum kleift að taka þátt í mun eigindlegra ferðalagi en aðrir miðlar bjóða upp á. Þar með eru færð rök fyrir því að spilarinn geti upplifað sig sem hluta af hinum ýmsu skáldlegu veruleikum á annan hátt en aðrir miðlar gera ráð fyrir. Sú upplifun hefur þó ekki eingöngu áhrif á túlkun tölvuleikja sem stakra verka heldur getur haft áhrif á sjálfsmynd þeirra sem spila þá og tengsl þeirra við leiki utan spilunarinnar sjálfrar.
Að lokum inniheldur ritgerðin greiningardæmi sem ætlað er að renna stoðum undir þær kenningar sem koma þar fram. Þeim er ætlað að sýna fram á umræddar hugmyndir á forsendum ákveðinna leikja í stað þess að tala aðallega um þær almennt. Raundæmi af þessum toga rannsaka tengsl ferðalaga og tölvuleikja enn frekar og sýna fram á í verki hvernig hægt er að túlka leiki sem ferðalög.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Nökkvi_Jarl_Tölvuleikjaspilun_sem_ferðalag_(27.05.15.).pdf | 563,17 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |