Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/21014
Í ljósi sameiginlegra minninga um síðari heimsstyrjöldina er þjóðernisfrásögnin á Íslandi rannsökuð ásamt viðhorfi íslenskra framhaldsskólakennara í sögu. Í þessari ritgerð eru hugtökin sameiginleg minning og þjóðernisfrásögn greind út frá stríðsárunum á Íslandi og eftirmála hennar.
Á undanförnum áratugum hefur endurskoðun átt sér stað á Norðurlöndunum en Ísland hefur staðið eftir hvað varðar umfang hennar. Um ástæður þess hafa íslenskir fræðimenn meðal annars nefnt skort á álitamálum og það að síðari heimsstyrjöldin hafi ekki passað inn í þjóðarfrásögnina.
Í ritgerðinni eru einnig birtar niðurstöður spurningalistakönnunar sem lögð var fyrir sögukennara í íslenskum framhaldsskólum en þar kom til að mynda fram að svarendum þykir jafn mikilvægt að kenna um stríðsárin á Íslandi og hið alþjóðlega stríð. Þeir kenna þó meira um alþjóðastríðið, meðal annars vegna áhuga nemenda og lítils efnis sem stendur til boða.
Ritgerðin er unnin í samvinnu við Árna Stefán Guðjónsson sem skrifaði meira um kennslubækur en kennsluna sjálfa.
Niðurstöður ritgerðarinnar voru meðal annars þær að hér á landi hefur að vissu leyti ekki farið fram sú endurskoðun sem þörf er á. Tilgátur um skort á álitamálum og að þau passi ekki inn í þjóðernisfrásögnina eru vissulega góðar ábendingar en staða Íslendinga var gjörólík öðrum þjóðum. Rík ástæða er til endurskoðunar á stríðsárunum og mættu kennslubækur í framhaldsskólum fjalla um þau á mun gagnrýnni hátt en raunin er í dag.