Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21078
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif athygli á tvær gerðir hulna. Rammahula (metacontrast mask) hylur áreiti með því að birtast sem rammi umhverfis áreiti og er talin tengjast skynjunarkerfum snemma í sjónferlinu. Tími frá birtingu áreitis að birtingu hulu og fjarlægð hulu frá áreiti eru atriði sem skipta mestu máli í virkni Rammahulu. Yfirtökuhula (object substitution) hylur áreiti með því að birtast sem nokkrir punktar í kringum áreiti og er talin tengjast skynjunarkerfum seinna í sjónferlinu. Slíkar hulur virka helst ef athygli er ekki fyrirfram beint að áreiti sem á að hylja. Ýfing á sér stað þegar eiginleikar áreitis eru endurteknir á milli umferða og athygli beinist þar af leiðandi hraðar að áreiti. Átta þátttakendur tóku þátt í sjónleitarverkefni þar sem verkefnið var að segja til um hvort skorið var hægra eða vinstra megin af markáreiti sem var ólíkt öðrum áreitum á skjá. Litur markáreitis var ýmist endurtekinn eða breytilegur á milli umferða og Rammahula eða Yfirtökuhula birtist einstöku sinnum í kjölfar markáreitis. Niðurstöður sýndu skýr ýfingaráhrif þar sem svartími þátttakenda styttist eftir því sem litur markáreitis hafði verið endurtekinn oftar. Hulur virkuðu einnig sem skyldi þar sem hlutfall réttra svara var lægra í umferðum sem innihéldu hulu en í umferðum án hulu. Hlutfall réttra svara við Yfirtökuhulu fór þó hækkandi eftir því sem litur markáreitis hafði verið endurtekinn oftar. Það átti ekki við um Rammahulu. Yfirtökuhula er því sterklega undir áhrifum athygli þar sem virkni hennar virðist minnka ef athygli er beint hraðar að markáreiti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_Lilja.pdf | 384,34 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |