Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21104
Tengsl andlegrar líðanar framhaldsskólanema við skuldbindingu þeirra til náms og skóla voru athuguð. Gögn voru nýtt úr langtímarannsókninni Námsframvinda nemenda og skilvirkni íslenskra framhaldsskólanema, gagnasöfnun fór fram árið 2007. Þátttakendur í þessari rannsókn voru 3.545 nemendur úr öllum framhaldsskólum landsins. Þeir voru á aldrinum 16 til 20 ára, þar af 52% stúlkur. Fjölbreytuaðhvarfsgreining var notuð til að meta forspá andlegrar líðanar nemenda um skuldbindingu þeirra. Tekið var tillit til kyns, fyrri námsárangurs nemenda og menntunar foreldra. Niðurstöður benda til þess að andleg líðan spái fyrir um hegðunarlega, tilfinningalega og vitsmunalega skuldbindingu nemenda. Eftir því sem nemendur sýndu meiri einkenni depurðar og kvíða því minna lögðu þeir sig fram við námið, samsömuðu sig verr skólanum og höfðu minni metnað fyrir því að ljúka námi. Einnig kom fram munur á skuldbindingu og líðan nemenda eftir kyni, fyrri námsárangri og menntun foreldra. Þar sem skuldbinding nemenda hefur forspá fyrir brotthvarf frá námi hafa þessar niðurstöður gildi fyrir náms- og starfsráðgjafa og annað starfsfólk skóla sem vinnur gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum landsins og hefur bættan hag nemenda að leiðarljósi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Tengsl andlegrar líðanar framhaldsskólanema við skuldbindingu þeirra til náms og skóla.pdf | 688,95 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |