Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21123
Þessi rannsókn fjallar um upplifun ungra atvinnuleitenda af langtíma atvinnuleysi og atvinnuleit. Megin markmið rannsóknarinnar var að fá mynd af því hvaða áhrif atvinnuleysi hefur á líf ungra atvinnuleitenda sem hafa lokið formlegu námi og verið í atvinnuleit í sex mánuði eða lengur. Litið er til þeirra samfélagslegu áhrifa sem atvinnuleysi hefur á líf og tilfinningalega líðan ungmennanna. Einnig er horft til þess hvernig ungu atvinnuleitendurnir sjá framtíðina fyrir sér og hvert þau stefna á náms- og starfsferli sínum. Rannsóknin er byggð á eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem viðtöl voru tekin við átta einstaklinga á aldrinum 23 - 27 ára.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þátttakendurnir upplifa stöðu sína á neikvæðan hátt. Unga fólkið fann fyrir erfiðum tilfinningum á borð við skömm og telja sig vera utanveltu í samfélaginu. Áhugavert var að ungmennin töldu sig ekki vera tilbúna til þess að taka stórar ákvarðanir um framtíð sína á þessum tímapunkti lífsins og skilgreina sig ekki sem fullorðna einstaklinga. Einnig sýna niðurstöður rannsóknarinnar að auka þurfi sýnileika náms- og starfsráðgjafa. Rannsóknin gæti ennfremur nýst til að auka skilning á þeirri félagslegu vanlíðan sem ungir atvinnuleitendur upplifa. Til að bregðst við væri hægt að halda námskeið fyrir ungmennin á fyrstu þremur mánuðum atvinnuleitarinnar til að styrkja þau og minnka neikvæð áhrif atvinnuleysis.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
asdis_eyrun_MA.pdf | 956.5 kB | Lokaður til...21.05.2025 | Heildartexti |