Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21179
Ritgerð þessi fjallar um bænaiðkun Íslendinga, ýmsar tegundir bæna og ávinning þess að biðja. Bænalíf íslensku þjóðarinnar á sér langa sögu og hefur verið samofið baráttunni við náttúruöfl og lífsafkomu. Hér verður gluggað í bænaiðkun fólks frá árinu 1900 til ársins 1920 og skoðað hvaða bænir voru helst kenndar og borið saman við samanburðarhóp sem fæddur er á tímabilinu 1970-1980. Einnig birtist hér viðtal við konu sem fædd er árið 1920, þar sem hún segir frá bænaiðkun sinni og sinna afkomenda.
Bænaiðkun má finna víða og undir mismunandi formerkjum, óháð trúarlífi og menningu. Þess má geta að bænin verður að mestu skoðuð hér út frá kristinni trúarhefð. Bænin hefur löngum tengst daglegu lífi Íslendinga, jafnt í gleði og sorg, og birtingarmyndirnar eru því margar og fjölbreytilegar. Þegar harðnað hefur á dalnum og öll vopn hafa verið af okkur tekin, þá höfum við leitað í bænina í von um styrk og lausn. Bænaarfurinn er dýrmætur hluti af menningu okkar og sögu lands og þjóðar.
Bænir eins og ferða- og verndarbænir eru vel þekktar og verður þeim gerð skil hér ásamt öðrum tegundum bæna.
En skilar bænin einhverju? Heyrir Guð bænir okkar? Hvað er það í bæninni sem gerir það að verkum að við notum hana, kannski daglega eða jafnvel oft á dag? Leitast verður við að svara þessum spurningum, m.a. með því að skoða hvað Biblían hefur að segja um bænina. Lesið verður úr svörum viðmælenda og rýnt annars vegar í rannsókn sem unnin var um mátt bænarinnar og hins vegar í viðhorfsrannsóknir sem gerðar voru 1987 og 2004 um trúarlíf Íslendinga.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð í Djáknanámi.pdf | 374.57 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |