Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21187
Samspil umhverfis og uppeldis virðist skipta mestu máli í mótun félagshæfni (e. social competence) unglinga. Mestu áhrifavaldarnir eru þó foreldrar, vinir og skóli. Margt er hægt að gera til að efla félagshæfni en má helst nefna að bæta tengsl milli foreldra og barna með stuðningi fagaðila sem hefur þekkingu á viðfangsefninu. Félagshæfni er vítt hugtak og á við um þá hæfni sem einstaklingur þarf að búa yfir til að eiga í árangursríkum samskiptum við aðra. Það getur því reynt á félagslega hæfni í hverskyns félagslegum aðstæðum, þar á meðal með þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Lengi vel hafa skipulagðar íþróttir gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þátttaka barna og unglinga hefur vaxið ört síðustu áratugi og má rekja fjölgun iðkenda til jákvæðs viðhorfs almennings til íþróttastarfs. Skipulagt íþróttastarf er álitin öflug forvörn gegn hverskyns áhættuhegðun og hefur jákvæð áhrif á unglinga eins og bætta sjálfsmynd og góða félagshæfni. Unglingsárin geta verið viðkvæmur tími í lífi einstaklinga þar sem sjálfsmyndin mótast og líkamlegar breytingar eiga sér stað. Í þessari ritgerð verður fjallað um hvaða áhrif þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur á félagshæfni unglinga. Niðurstöður rannsókna sýna að miklu máli skiptir með hvaða hætti starfið er. Umgjörð starfsins hefur mest forspárgildi þar sem gæði þjálfara ásamt góðum gildum íþróttafélagsins hefur mest um það að segja hversu mikil áhrif þátttakan hefur á unglinga. Þá verður skoðað hvernig forvarnir styðja við þátttöku í slíku starfi en börn og unglingar eru einn stærsti hópur iðkenda hér á landi og mikilvægt að tryggja að þau hafi jöfn tækifæri til þátttöku. Þá þykja félagsráðgjafar vel til þess fallnir að sinna forvarnarstarfi þar sem þeir hafa haldbæra þekkingu á mörgum sviðum sem hentar vel í samfélagsvinnu og vinnu með unglingum.
Lykilorð: unglingar, félagshæfni, skipulagt íþróttastarf, sjálfsmynd og forvarnir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
áhrif_þátttöku_í_skipulögðu_íþróttastarfi_á_félagshæfni_unglinga.pdf | 787.41 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |