Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21200
Ritgerð þessi er lögð fram til BA-prófs í almennum málvísindum við Háskóla Íslands. Til umfjöllunar er fallmörkun andlaga þeirra nýju sagna sem komið hafa inn í málið á síðustu áratugum og þær upplýsingar sem þessar sagnir geta veitt um fallakerfið í heild sinni. Í fyrri hluta ritgerðarinnar er farið yfir nokkrar kenningar sem komið hafa fram um fallmörkun andlaga og af hverju hún ræðst. Þá er sérstaklega fjallað um þágufallsandlög og þá merkingarfræðilegu þætti sem kallað gætu á þau.
Í seinni hluta ritgerðarinnar er farið yfir framkvæmd og niðurstöður rannsóknar á fallmörkun andlaga nýju slangursagnanna. Rannsóknin sem var þríþætt fólst í tveimur netkönnunum, viðtalskönnun sem hugsuð var til þess að afla skýringa á svörum netkannananna, og netgagnasöfnun þar sem náttúrulegra gagna var aflað með leitum á leitarsíðunni google.com. Sérstök áhersla var lögð á þær sagnir sem stýra þágufalli og þær sagnir sem ýmist geta tekið þolfalls- eða þágufallsandlag. Gert var ráð fyrir að þolfall væri sjálfgefið fall andlaga í íslensku og því þyrfti engra sérstakra skýringa við þegar nýjar sagnir stýra þolfalli. Tilgangur rannsóknarinnar var að reyna að svara því hvernig fallmörkun í íslensku er háttað og hvort finna megi merkingarfræðilega þætti sagna sem ævinlega kalla á þágufallsandlag.
Rannsóknin sýndi að töluverður breytileiki er í fallmörkun andlaga nýju sagnanna en hvort sá breytileiki er varanlegur eða ekki verður tíminn að leiða í ljós. Niðurstöður rannsóknarinnar virðast enn fremur benda til þess að málhöfum séu tvær leiðir færar þegar fall andlags nýrrar sagnar er ákvarðað. Annars vegar geta málhafar notað hina sjálfgefnu fallmörkun (nefnifallsfrumlag, þolfallsandlag) án þess að merking sagnar hafi þar nokkur áhrif eða valið fall út frá merkingarfræðilegum þáttum sem sögn hefur að bera. Engin dæmi fundust um aðlögun nýrrar sagnar að stakri sögn án þess að aðrir merkingarfræðilegir þættir hefðu áhrif. Hreyfing hefur löngum verið talinn sá merkingarfræðilegi þáttur sem hvað helst kallar á þágufall. Rannsóknin staðfestir þær hugmyndir sem og áhrif annarra merkingarfræðilegra þátta, líkt og dreifingar, stuldar, loka og óhófs, sem einnig virðast kalla á þágufall á andlagi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BAritgerð_RannveigBÞórarinsdóttir.pdf | 692.46 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |