is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21212

Titill: 
 • Framhaldsmenntun í tónlist á Íslandi: Þróun, framtíð og stefna
 • Titill er á ensku Higher Music Education in Iceland
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Markmið þessarar ritgerðar er að greina stöðu framhaldsmenntunar í tónlist á Íslandi, fara yfir þróun hennar til þessa og greina hvernig megi styrkja hana og bæta. Til þess að fá skýra yfirsýn yfir íslenskt menningarlíf og þær áskoranir sem ný kynslóð tónlistarmanna stendur frammi fyrir var íslenskt tónlistarlíf greint með hliðsjón af kenningum um klasa. Tónlistarskólinn í Reykjavík hefur í gegnum tíðina gegnt forystuhlutverki í framhaldsmenntun í tónlist og því var gerð rannsókn með skólann að meginviðfangsefni. Um þríþætta raundæmisrannsókn var að ræða þar sem framhaldsmenntun í tónlist á Íslandi var til athugunar, þá var íslenski tónlistarklasinn kortlagður og loks voru ytri og innri þættir í starfsemi Tónlistarskólans í Reykjavík greindir og í framhaldi af því unnið að framtíðarstefnumótun fyrir skólann.
  Niðurstaða greiningarinnar sýnir okkur að tónlistarskólakerfið á Íslandi er nokkuð sterkt og aðgengi að tónlistarmenntun frekar almenn. Samt sem áður eru ágallar í kerfinu og margt sem má bæta. Menntun á framhaldsstigi stendur faglega vel að vígi í þeim skólum sem sérhæfa sig í kennslu á því stigi í Reykjavík, en fyrst og fremst eru það Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónlistarskóli FÍH sem ná að undirbúa nemendur nógu vel fyrir háskólanám og atvinnumennsku í tónlist. Þrátt fyrir það standa þessir skólar illa fjárhagslega og þurfa að takast á við erfiðar áskoranir hvað varðar rekstur þeirra. Því þarf að styrkja stöðu þessara skóla og tryggja rekstrargrundvöll þeirra til frambúðar. Brýn þörf er fyrir skýra menntastefnu þar sem tekið yrði á ýmsum aðkallandi vandamálum á sviði framhaldsmenntunar í tónlist og nauðsynlegt að finna skynsama framtíðarlausn um hvernig eigi að haga tónlistarkennslu á framhalds- og háskólastigi hér á landi. Þótt ekki verði boðið upp á slíka heildstæða menntastefnu í ritgerðinni eru lagðar fram ýmsar hugmyndir og tillögur um umbætur í menntamálum á framhalds- og háskólastigi.
  Eftir að hafa greint íslenska tónlistarklasann er ljóst að hann er að færast af mótunarstigi yfir í það að vera klasi á þróunarstigi og býður hann því nú upp á ótal tækifæri til uppbyggingar ef skynsamlega er staðið að málum. Engu síður stendur klasinn frammi fyrir erfiðum áskorunum sem mikilvægt er að taka alvarlega og bregðast við í tæka tíð svo að hann geti haldið áfram að þróast og dafna. Ein af þeim lykiláskorunum sem hann stendur frammi fyrir er að byggja upp öflugt menntakerfi sem skilar fyrsta flokks tónlistarmönnum inn í atvinnugreinina og leggur grunninn að gróskumiklu tónlistarlífi.
  Niðurstöður úr rannsókninni voru einnig kynntar í formi stefnumótunar fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem sett er fram stefna og aðgerðaáætlun með það að markmiði að styrkja og efla Tónlistarskólann í Reykjavík.

Samþykkt: 
 • 8.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/21212


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Framhaldsmenntun í tónlist á Íslandi.pdf1.44 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna