Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21310
Nánast á hverju ári frá lýðveldisstofnun hafa íslenskir forsætisráðherrar flutt tvenns konar hátíðarræður, þjóðhátíðarræðu þann 17. júní og áramótaræðu 31. desember. Þar hafa þeir fjallað um íslenska sögu og menningu og hlutverk þessa tvenns fyrir íslenskt samfélag. Hátíðarræðurnar hafa sáralítið breyst á lýðveldistímanum, hvorki að formi né inntaki, þó að sjá megi nokkurn blæbrigðamun á hvað varðar hina ráðandi söguskoðun íslenskrar þjóðareiningar. Áhersla ræðanna er á þá söguskoðun sem var ráðandi í íslensku samfélagi lengst af á 20. öldinni og af ræðunum að dæma er enn ráðandi meðal íslenskra stjórnmálamanna. Þessi söguskoðun sýnir sögu Íslands sem sögu sameinaðrar, kjarkmikillar þjóðar í andstöðu við erlent vald. Söguskoðunin ber sterkan svip af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, enda varð hún til samhliða henni og gegndi m.a. þeim tilgangi að sýna fram á sérstöðu Íslendinga og á grundvelli þess réttlætingu sjálfstæðs lýðveldis á Íslandi. Þrátt fyrir að allar ræðurnar hafi verið fluttar eftir fullnaðarsigur í sjálfstæðisbaráttunni lýsa forsætisráðherrarnir áframhaldandi framvindu sögunnar sem ævarandi, eða eilífri, sjálfstæðisbaráttu. Henni hafi alls ekki lokið þann 17. júní 1944 heldur standi Íslendingar stöðugt frammi fyrir ógn við sjálfstæði sitt. Þessi ógn er til að mynda sundurlyndi þjóðarinnar og erlent vald. Ástæður þess hversu keimlíkar ræðurnar hafa verið frá upphafi liggja fyrst og fremst í því frá hvaða sjónarhorni ráðherrarnir hafa litið íslenska sögu og hvaða tilgangi hún gegnir í samtímanum. Þjóðernisstefnan er þar í fyrirrúmi, sem og atvinnu- og efnahagslíf Íslendinga. Af þessu tvennu litast nánast öll umræða hátíðarræða forsætisráðherra lýðveldisins Íslands.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
vidarsnaer_ritgerd.pdf | 630,9 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |