Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21354
Getur verið að málfræðilegt kyn nafnorða hafi áhrif á merkingu þeirra? Erum við líklegri til þess að tengja orð eins og nemandi, bakari og læknir við karla en konur, einfaldlega vegna þess að þau eru karlkynsorð? Þessi ritgerð fjallar um málfræðilegt kyn og áhrif þess á merkingu nafnorða. Hún er lögð fram til BA-prófs í almennum málvísindum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.
Fyrsti hluti hennar fjallar um málfræðilegu formdeildina kyn, auk þess sem hugmyndir um málfræðilegt afstæði eru kynntar. Farið er stuttlega yfir rannsóknir á sviði málfræðilegs afstæðis og sérstaklega þær er varða áhrif málfræðilegs kyns á hugsun. Þá eru kynjakerfi ítölsku, þýsku og íslensku skoðuð og borin saman, en rannsókn mín er byggð fyrri rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum kyns á merkingarflokkun í ítölsku og þýsku.
Í köflum 2-4 er gerð ítarleg grein fyrir rannsókn minni á áhrifum málfræðilegs kyns á merkingarflokkun íslenskra málhafa. Leitast ég við að svara þeirri spurningu hvort málfræðilegt kyn hafi áhrif á merkingarflokkun í íslensku. Meginniðurstaðan er sú að áhrifa málfræðilegs kyns gætir þegar íslenskumælandi málhafar flokka nafnorð eftir merkingu, en koma aðeins fram þegar orðin tákna fyrirbæri sem hafa líffræðilegt kyn frá náttúrunnar hendi (hér: dýraheiti). Þessi áhrif virðast vera ómeðvituð. Út frá niðurstöðunum er hægt að draga þá ályktun að kyn nafnorða geti sannarlega haft áhrif á merkingu, en frekari rannsókna er þörf svo hægt sé að fullyrða um það með mikilli vissu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
thorbjorgthorvaldsdottir-ritgerd.pdf | 392.17 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |