Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21403
Mjólkursamningurinn eða samningur um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu er samkomulag milli hins opinbera og bænda og er viðbót við búvörulögin á atriðum sem við koma mjólkurframleiðslu. Samningurinn sem nú er í gildi, og gildir til ársloka 2016, var undirritaður árið 2004. Aðstæður á markaði hafa breyst mikið frá þeim tíma og vinna þarf að nýjum samningi. Það er því ekki úr vegi að kanna áhrif og hvata samningsins ásamt því hvernig hann hefur staðist tímans tönn.
Markmið samningsins og hvatar fara ekki alltaf saman en verðkerfið er notað til að skapa hvata bæði með afurðastöðvarverði og styrkjum frá hinu opinbera, í gegnum gripa- og beingreiðslur. Þá hefur samningurinn haft önnur áhrif en von var til með breyttum markaðsaðstæðum. Verð frá afurðastöð hefur lækkað á föstu verðlagi samhliða aukinni eftirspurn eftir mjólk og mjólkurvörum. Eftirspurnaraukningin hefur leitt til þess að framleiðsla hefur aukist sem aftur á móti hefur lækkað einingaverð bein greiðslna. Verð er svo lágt að það nær ekki meðalkostnaði grundvallarbúsins og búið er því rekið með tapi. Svo virðist sem daglegur rekstur mjólkurframleiðenda gangi upp í einhverjum tilfellum með því að fjármagna neyslu með þeim upphæðum sem eiga að tilheyra afskriftum og borga sér umtalsvert minni laun en miðað er við, bæði í verðlagsgrundvelli kúabús og í samfélaginu almennt, eða um 210 þúsund krónur á mánuði.
Það er í höndum verðlagsnefndar búvöru að ákveða verð til framleiðenda, afurðastöðvarverð en það fylgir vísitölu neysluverðs til langs tíma. Það sama er þó ekki hægt að segja um heildsöluverð sem verðlagsnefndin sér einnig um að ákveða. Það er einmitt um afurðastöðina sem langtímasamband virðiskeðjunnar slitnar. Ekki ríkir langtímasamband milli afurðastöðvarverðs og markaðsverðs, verðs til bænda og verðs til neytenda. Það þýðir með öðrum orðum að verðin fylgjast ekki að til lengri tíma. Verslunin horfir til innkaupaverðs við ákvörðun markaðsverðs og er langtímasamband þeirra á milli en það virðist ekki eiga við um verð til og frá afurðastöð sem bendir til þess að samræmi skorti við ákvarðanir verðlagsnefndar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_ÁstaSteinunnEiríksdóttir_frosíða.pdf | 1,21 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |