Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21411
Í þessari ritgerð eru borin saman verk tveggja rithöfunda frá gjörólíkum stöðum í heiminum: Íslandi og Japan. Verk rithöfundanna, sem og fræðileg skrif um þau, verða notuð til þess að draga fram þau einkenni sem segja mætti að hafi legið undir yfirborðinu, en þó ávallt verið til staðar. Fjallað er um rithöfundana Svövu Jakobsdóttur og Murakami Haruki og rök færð fyrir því að verk Svövu megi einnig greina út frá töfraraunsæi fremur en fantasíu, rétt eins og skrif Murakami. Byrjað er á því að fara yfir helstu kenningar um töfraraunsæi og gerð tilraun til að draga fram meginþráð þeirra og þar með staðsetja ritgerðina innan þeirrar fræðilegu umræðu. Verk Svövu eru svo tekin fyrir og greind út frá kenningum töfraraunsæisins samhliða samanburði við fyrri greiningar sem einkenndust af fantasíu og fleiri stefnum. Undir lokin er skáldskapur Murakami tekinn fyrir vegna líkinda við verk Svövu og vegna stöðu Murakami sem dæmi um töfraraunsæishöfund. Svava Jakobsdóttir og Murakami Haruki virðast beita töfraraunsæi til að lýsa upplifun einstaklinga sem eiga erfitt með að samræma sjálfsmyndir (e. identities) sínar við ríkjandi kerfi með því að gera upplifanir þeirra að hlutlægum raunveruleika. Töfraraunsæið birtist meðal annars í verkum Svövu og Murakami í því að láta „innra borðið snúa út“. Sem sagt: að gera upplifun og tilfinningar persónanna að hlutlægum raunveruleika.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð - Lokaútgáfa - Már.pdf | 956,72 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |