Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21470
Viðfangsefni ritgerðarinnar er að skoða íslenskan landbúnað út frá fræðum samkeppnishæfni, klasa og klasastjórnunar. Á undanförnum árum hefur sjónum verið beint í auknum mæli að mikilvægi rekstrarumhverfis fyrirtækja og í því samhengi hafa klasar fengið aukna athygli. Hugmyndafræðin um klasa bendir til að mikill hluti samkeppnisforskots liggi í ytra umhverfi fyrirtækja og litið er á staðsetningu sem meginuppsprettu forskotsins. Til að ýta undir vöxt og samkeppnishæfni klasa hafa klasaframtök af ýmsu tagi verið sett á laggirnar.
Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði síðastliðna áratugi og þróunin hefur meðal annars mótast af breyttum þjóðfélagsháttum og neyslumynstri. Forsvarsmenn landbúnaðarins horfa fram á miklar breytingar og tækifæri í atvinnugreininni. Klasaframtakið Landbúnaðarklasinn var formlega stofnað í júní 2014 til að styrkja og efla þá fjölbreyttu starfsemi sem tengist landbúnaði.
Í ritgerðinni er farið yfir þróun landbúnaðarins á síðustu 50 árum, skoðað hvort klasanálgun geti ýtt undir framleiðni og samkeppnishæfni íslenska landbúnaðarklasans og hvaða væntingar aðilar Landbúnaðarklasans hafa til starfsemi framtaksins.
Rannsóknin styðst við aðferðir raundæmisrannsókna og byggir rannsóknin á fyrirliggjandi gögnum, bæði fræðilegum og tölulegum ásamt gögnum sem var aflað sérstaklega fyrir rannsóknina.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að íslenski landbúnaðarklasinn sé orðinn þroskaður klasi. Í rekstarumhverfi klasans eru ákveðnir styrkleikar sem byggja má á og nýta til eflingar atvinnugreinarinnar. Í umhverfinu eru einnig þættir sem hamla að árangur náist í verðmætasköpun í greininni. Samkeppni er lítil, aðfangakostnaður hár og brýn þörf er á heildarstefnumörkun stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Að mati rannsakanda er mikilvægt er að halda áfram því starfi sem hófst með undirbúningi og stofnun Landbúnaðarklasans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Íslenski landbúnaðarklasinn.pdf | 2,03 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |