Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21474
Álag á heilbrigðisstarfsfólk innan veggja sjúkrahúsa er oft á tíðum mikið og getur haft áhrif á vellíðun þeirra í starfi. Myndgreiningarannsóknir eru mikilvægar til sjúkdómsgreiningar og því nauðsynlegar varðandi meðferðir sjúklinga. Geislafræðingar sinna slíkum rannsóknum en þeir eru fámenn stétt á Íslandi. Með auknu flæði sjúklinga á spítala eykst þörfin á röntgenrannsóknum og álag á starfsmenn deildarinnar um leið. Þegar álag í starfi er komið yfir ákveðinn þröskuld aukast líkurnar á vinnutengdri streitu og vanlíðan. Rætt var við geislafræðinga um álagið sem fylgir því að starfa á sjúkrahúsi. Til að nálgast viðfangsefnið var notuð eigindleg rannsóknaraðferð, nánar tiltekið fyrirbærafræði, þar sem gögnum var safnað með djúpviðtölum. Niðurstöður leiddu í ljós að viðmælendur höfðu á einhverjum tímapunkti fundið fyrir of miklu álagi í starfi sem leiddi til vanlíðunar. Geislafræðingar starfa í mikilli samvinnu við röntgenlækna og í álagi breyttust samskiptin þeirra á milli til hins verra. Samskiptin innan geislafræðingahópsins voru þó góð þar sem sameiginlegur skilningur var á starfinu og þeir lýstu öðrum geislafræðingum sem góðu samstarfsfólki. Þá töldu viðmælendur að stuðningur frá stjórnendum mætti vera meiri. Viðmælendum fannst starfið vera fjölbreytt og skemmtilegt og upplifðu að starf þeirra hefði tilgang fyrir aðra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ma_RITGERDIN.pdf | 6,23 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |