Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21492
Tilgangur rannsóknar: Eftir að nýr línuhraðall var tekinn í notkun á Geisladeild Landspítala þjónar enduruppbygging tölvusneiðmynda auknu hlutverki. Nýi línuhraðallinn, Truebeam frá Varian gefur kost á nýrri tækni við framkvæmd geislameðferðar sem gerir það aðkallandi að bæta gæði DRR mynda. Markmið verkefnisins var að fá samanburð á DRR myndum frá geislaáætlanakerfi við röntgenmyndir frá geislahermi. Einnig að meta kosti og galla á því að nota DRR myndir til samanburðar við eftirlitsmyndir sem teknar eru við innstillingar í línuhraðli. Með bættum gæðum á DRR myndum er unnt að auka öryggi og nákvæmni í innstillingum við geislameðferð.
Efni og aðferðir: Á grundvelli tölvusneiðmynda af líkönum, sem teknar voru með ólíkum tökuþáttum, var lagt mat á gæði DRR mynda. Í verkefninu var athugað hvaða tökuþættir í CT gefa bestu myndgæði DRR mynda og hvernig má fá fram í Eclipse-geislaáætlanakerfinu hagstæðar DRR myndir sem geta nýst sem viðmiðunarmyndir í innstillingum við línuhraðla. Gerðar voru mælingar á bjögun, kontrast og rúmfræðilegri upplausn. Einnig var metið hvaða áhrif það hefði að hliðra snúningsmiðju fókuspunktar við myndatöku af líkani. Að auki voru gerðar mælingar á línupörum í Leeds-líkani þegar gluggastærð var breytt í stjórnkerfi Eclipse-geislaáætlanakerfisins. Að lokum var síðan gerð prófun á stækkunarfaktor í DRR mynd með Beekley-vírum.
Niðurstöður: Niðurstöður mælinga á bjögun fyrir geislahermismyndir og DRR myndir sýna að myndirnar úr geislahermi hafa meiri rúmfræðilega upplausn en DRR myndir. Með þeim aðferðum sem notaðar voru í þessu verkefni er ekki unnt að sýna mun á kontrast eftir CT sneiðþykkt, sneiðþéttleika eða FOV. Þegar beitt var sneiðingu, aftur á móti, í Eclipse-geislaáætlanakerfinu og valið að skoða kontrastinn fyrir 0-6 cm sneiðingu miðað við 0-12 cm sneiðingu þá mældist skýr munur á kontrast. Bjögun í myndinni eykst með aukinni fjarlægð milli sneiða. Það að hliðra snúningsmiðju fókussins þannig að stefnulínan kæmi skáhallt á holurnar varð til þess að þær urðu elipsu-laga. Við mælingar með Leeds-líkaninu kom í ljós að DRR mynd hefur verri rúmfræðilega upplausn heldur en hefðbundin mynd í geislahermi. Aðferðin sem notuð var til að mæla stækkunarfaktor í DRR mynd sýnir að hægt er að fá fullnægjandi niðurstöður um að útreikningur DRR myndar sýni rétta stækkunarfaktora.
Ályktun: DRR myndir hafa ekki sömu gæði og hefðbundnar röntgenmyndir frá geislahermi. Hægt er að bæta gæði DRR mynda með því að taka þéttari sneiðar og nýta stillingar á myndþáttum með Eclipse-geislaáætlanakerfinu. Þannig má með breyttu verklagi bæta gæði DRR mynda sem notaðar eru í undirbúningi geislameðferðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Guðrún Mjöll Stefándóttir-diplómaritgerð.pdf | 1.24 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |