is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21509

Titill: 
 • Krabbamein í penis á Íslandi 1989-2014. Nýgengi og lífshorfur
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Krabbamein í penis er sjaldgæfur en alvarlegur sjúkdómur sem herjar einkum á karla 60 ára og eldri en sjúkdómurinn hefur aldrei verið rannsakaður skipulega á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi og lífshorfur karla sem greindust með krabbamein í penis á tímabilinu 1989-2014 auk þess að greina meðferðarkosti og árangur þeirra.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin tók til allra karla sem greindust með ífarandi krabbamein í penis. Upplýsingar um greiningu fengust frá Krabbameinsskrá Íslands og upplýsingar um sjúklinga úr sjúkraskrám LSH og FSA auk dánarmeinaskrá Landlæknisembættisins. Við útreikning á aldursstöðluðu nýgengi var miðað við alþjóðlegan staðal og við lifunargreiningu var notast við Kaplan-Meier-aðferðina. Fjölbreytulíkan Cox var notað til að meta forspárþætti lifunar og Clavien-Dindo flokkunarkerfið var notað við skráningu á fylgikvillum.
  Niðurstöður: Alls greindist 61 karl með ífarandi krabbamein í penis á tímabilinu. Þar af reyndust 58 (95%) vera með flöguþekjukrabbamein. Meðalaldur við greiningu var 67,9 ár (95% ö: 64,6 – 71,4). Árlegt aldursstaðlað nýgengi var að meðaltali 1,12 af 100.000 (95% ö: 0,85 – 1,40) en engin marktæk breyting varð á þróun nýgengis á rannsóknartímanum (p=0,30). Meinafræðilegt æxlisstig frumæxla var T1 (69%), T2 (24%), T3 (5%) og TX (2%). Alls fengu 12 sjúklingar (21%) meinvörp í náraeitla og var meinafræðilegt æxlisstig þeirra N1 (25%), N2 (9%), N3 (33%) og NX (33%). Tuttugu og einn læknir framkvæmdi alls 78 aðgerðir á 56 meinum á tímabilinu. Læknandi meðferð var beitt í 95% tilvika. Reðursparandi aðgerðum var beitt í 74% tilvika T1 æxla og í helmingi tilvika alls. Fjölgun reðursparandi aðgerða eftir 2002 var þó ekki tölfræðilega marktæk (p=0,30). Eitlataka var gerð hjá sjö sjúklingum en sjö fengu annars konar meðferð. Fyrirbyggjandi meðferð var beitt í tveimur tilvika (14%), læknandi meðferð í sex (43%) og líknandi í sex (43%). Lítill munur var á árangrinum af eitlatöku annars vegar og öðrum meðferðum hins vegar en endurkomutíðnin var sú sama eða 83%. Meinafræðilegt æxlisstig frumæxlis var sjálfstæður forspárþáttur þess að fá meinvörp í náraeitla (p<0,05). Tuttugu sjúklingar (36%) fengu fylgikvilla eftir aðgerð á frumæxli og fimm (36%) eftir meðferðir á náraeitlum en 65% fylgikvillanna voru minniháttar (Clavien-Dindo flokkur I). Marktækt færri fylgikvillar voru skráðir eftir reðursparandi aðgerðir en brottnámsaðgerðir (p<0,001). Meðaltal eftirfylgnitímans var 57 mánuðir (95% ö: 39,7 – 74,7). 5 ára heildarlifun var 53% og 5 ára sjúkdómssértækri lifun 76%. Aldur var sjálfstæður forspárþáttur heildarlifunar (p<0,05) en meinvörp í eitlum við greiningu (N1+) var sjálfstæður forspárþáttur sjúkdómssértækrar lifunar (p<0,05).
  Ályktanir: Rannsóknin sýnir að nýgengi og lífshorfur sjúklinga með krabbamein í penis hefur verið stöðug sl. 26 ár og ekki hafa orðið teljandi breytingar á meðferðinni á tímabilinu. Jafnframt er nýgengi og lifun áþekk því sem gerist í nágrannalöndunum og sömuleiðis árangur af meðferðum. Rannsóknin staðfestir einnig að meinvörp í náraeitlum eru mikilvægasti forspárþáttur lifunar.

Samþykkt: 
 • 13.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/21509


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Krabbamein í penis á Íslandi 1989-2014 - Sindri Ellertsson Csillag.pdf1.87 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna