is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21532

Titill: 
  • Hjartabilun meðal eldri Íslendinga. Algengi, nýgengi, áhættuþættir og horfur.
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Hjartabilun er bæði algengur og alvarlegur sjúkdómur sem leggst fyrst og fremst á eldra fólk og orsakast af því að hjartað tapar getu sinni til að sjá líkamanum fyrir nægjanlegu magni af blóði eða getur það aðeins við verulega hækkaðan fylliþrýsting. Skipta má hjartabilun í tvær megingerðir, hjartabilun með minnkað útstreymisbrot (HFrEF) og hjartabilun með varðveitt útstreymisbrot (HFpEF). Þrátt fyrir að þessar tvær gerðir séu svipaðar m.t.t einkenna eru ástæður þeirra oft ólíkar, algengi þeirra er mismunandi eftir sjúklingahópum og meðferð þeirra er misárangursrík. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi og nýgengi hjartabilunar meðal eldri Íslendinga með áherslu á þær tvær gerðir sem nefndar voru ásamt því að meta horfur og áhættuþætti sjúkdómsins.
    Efni og aðferðir: Gögn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar voru nýtt við þessa rannsókn og mynduðu þátttakendur hennar rannsóknarhópinn. Öldrunarrannsóknin er framsýn ferilrannsókn sem tekur til 5764 einstaklinga á aldrinum 66-98 ára en þátttaka þeirra í rannsókninni hófst á árunum 2002-2006. Frá Landspítalanum fengust gögn úr sjúkraskrám þeirra einstaklinga sem greindir voru með hjartabilun eftir að þátttaka þeirra í Öldrunarrannsókninni hófst til 28.2.2010 og voru þær greiningar sannreyndar út frá fyrir fram ákveðnum skilmerkjum. Auk þess fengust upplýsingar úr sjúkraskrám um það hvort þátttakendur rannsóknarinnar hefðu greinst með hjartabilun fyrir Öldrunarrannsóknina. Út frá þessum gögnum var algengi og nýgengi hjartabilunar reiknað, langtímalifun hjartabilunarsjúklinga var metin með aðferð Kaplan-Meier og undirliggjandi sjúkdómar kannaðir. Auk þess var aðhvarfsgreiningarlíkan Cox notað til að kanna tengsl áhættuþátta á miðjum aldri við hjartabilun.
    Niðurstöður: Alls voru til skoðunar 776 tilvik af hjartabilun. Algengi hjartabilunar mældist 3,7% og var það marktækt hærra hjá körlum (4,8%) en konum (2,8%) (p<0,001). Nýgengið mældist 16,5 tilvik á 1000 manns á ári og var það marktækt hærra hjá körlum (21,5/1000 manns á ári) en konum (13,1/1000 manns á ári) (p<0,001). Nýgengi HFrEF mælidst 6,2 tilvik á 1000 manns á ári og reyndist það einnig marktækt hærra hjá körlum (10,1/1000 manns á ári) en konum (3,4/1000 manns á ári) (p<0,001). Nýgengi HFpEF mældist 6,9 tilvik á 1000 manns á ári en ekki var marktækur munur á nýgengi karla (7,2/1000 manns á ári) og kvenna (6,7/1000 manns á ári) (p=0,62). Fimm ára lifun hjartabilunarsjúklinga reyndist vera 31,2% og var lifun kvenna marktækt betri en lifun karla (p=0,019). Ekki reyndist tölfræðilega marktækur munur á lifun einstaklinga með HFpEF og HFrEF (p=0,07). Miðgildi lifunar hjartabilunarhópsins var 2,73 ár en miðgildi lifunar jafnaldra þeirra sem ekki höfðu greinst með hjartabilun var 8,48 ár. Tveir algengustu undirliggjandi sjúkdómar hjartabilunar voru kransæðasjúkdómur og háþrýstingur en reykingar á miðjum aldri reyndust hafa sterk tengsl við hjartabilun síðar á ævinni (HR: 1,65, 95% CI: 1,33-2,05, p<0,001).
    Umræða: Algengi og nýgengi hjartabilunar er hátt og eykst stöðugt í takt við hækkandi aldur einstaklinga auk þess sem fimm ára lifun hjartabilunarsjúklinga er slæm. Karlar fá frekar hjartabilun en konur og að auki greinast þeir frekar með HFrEF en konur greinast frekar með HFpEF. Augljóst er að hjartabilunargreining dregur mjög úr lífslíkum eldra fólks á Íslandi.

Samþykkt: 
  • 15.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21532


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð_HE.pdf1.25 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna