is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21534

Titill: 
 • Titill er á ensku The Association of Coronary Calcium With Traditional Risk Factors for Cardiovascular Disease
 • Tengsl kalks í kransæðum við almenna áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Kransæðasjúkdómar eru algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla á vesturlöndum, þar með talið á Íslandi. Dæmi um áhættuþætti sem auka líkur á kransæðasjúkdómi eru ættarsaga, reykingar, háþrýstingur og blóðfituraskanir. Hugsanlega er gagnlegt að finna merki æðakölkunar hjá áhættuhópum, áður en einkenni sjúkdóms koma fram. Magn kalks í kransæðum, metið með kalkskori, gefur til kynna umfang æðakölkunar og hefur mjög sterkt forspárgildi fyrir hættu á æðaáföllum. Þeir sem eru með hátt kalkskor eru í mikilli áhættu, en þeir sem hafa ekkert kalk í kransæðum eru í mjög lágri áhættu. Tengsl kalskors við aðra áhættuþætti eru ekki fyllilega ljós. Þessi rannsókn skoðar tengsl kalkskors við kyn, aldur, líkamsþyngdarstuðul, reykingar, blóðfitur, blóðsykurgildi og háþrýsting.
  Efniviður og aðferðir: Farið var yfir niðurstöður tölvusneiðmynda af kransæðum í Röntgen Domus fyrir árið 2011. Alls var um að ræða 993 einstaklinga, kalkskor lá fyrir hjá 727 þeirra. Upplýsingar um aldur, kyn, líkamsþyngdarstuðul og reykingar voru fengnar úr gögnum Röntgen Domus. Upplýsingar um blóðfitur og blóðsykurgildi voru fengnar úr gagnagrunnum rannsóknarstöðva í Mjódd og Glæsibæ. Upplýsingar um notkun blóðfitu- og blóðþrýstingslækkandi lyfja 6 mánuðum fyrir og eftir tölvusneiðmyndina voru fengnar hjá lyfjagagnagrunni Landlæknis. Skoðuð var fylgni á milli kalkskors og annarra áhættuþátta.
  Niðurstöður: Kalkskor lá fyrir hjá 379 körlum og 348 konum (n = 727). Kalkskor var marktækt hærra hjá körlum en konum (136,6 ± 275,8 vs 54,5 ± 143,3, p < 0,001). Jákvæð fylgni var á milli aldurs og kalkskors hjá bæði körlum (rs = 0,315, p < 0,001) og konum (rs = 0,309, p = 0,001). Jákvæð fylgni var á milli kalkskors og líkamsþyngdarstuðuls (rs = 0,1020619, p = 0,006454). Fylgni var við reykingar, en meðalkalkskor hjá núverandi eða fyrrum reykingfólki var 118,2, en 66,5 hjá þeim sem höfðu aldrei reykt (p < 0,001). Meðalkalkskor hjá einstaklingum á blóðþrýstingslyfjum var 130,4 + 272,2, en 67,1 + 168,5 hjá þeim sem tóku ekki blóðþrýstingslyf (p < 0,001). Jákvæð fylgni fannst við blóðsykurgildi (rs = 0,1449489, p = 0,015) og HbA1c (rs = 0,200564, p = 0,018). Þegar einstaklingar á blóðfitulækkandi lyfjum voru útilokaðir fannst öfug fylgni á milli HDL-kólesteróls og kalkskors (rs = -0,138, p = 0,026). Engin fylgni var á milli kalkskors og heildarkólesteróls né kalkskors og LDL-kólesteróls. Þegar karlmenn voru skoðaðir sérstaklega fannst ekki marktæk fylgni millli kalkskors og blóðfitugilda. Hjá konum fannst marktæk fylgni milli kalkskors og þríglýseríða (rs = 0,292, p = 0,002) og þríglýseríða/HDL-kólesteról hlutfalls (rs = 0,235, p = 0,012).
  Ályktanir: Karlar hafa hærra kalkskor en konur. Jákvæð fylgni er milli kalskors, aldurs, reykinga, líkamsþyngarstuðuls, háþrýstings og blóðsykurs. Fylgni er á milli HDL-kólesteróls og kalkskors. Þegar kynin voru skoðuð í sitt hvoru lagi fannst jákvæð fylgni á milli þríglýseríða og þríglýseríða/HDL-kólesteról hlutfalls hjá konum, en engin marktæk fylgni við blóðfitur hjá körlum.

Samþykkt: 
 • 16.5.2015
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/21534


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
kristjan-mar-gunnarsson.pdf1.46 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna