is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21536

Titill: 
  • Starfsemi æðaþels og áhættumat Hjartaverndar
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Starfsemi æðaþels og áhættumat Hjartaverndar
    Inngangur:
    Hjarta- og æðasjúkdómar eru stærsta orsök dauðsfalla í nær öllum heimshlutum og bera kransæðasjúkdómar helst sök á þessari háu dánartíðni. Forvarnir þessara sjúkdóma gegna veigamiklu hlutverki og á Íslandi er áhættumat Hjartaverndar nýtt í því skyni. Helstu áhættuþættir eru metnir og reiknaðar líkur á greiningu kransæðasjúkdóms næstu 10 árin. Stór hluti hjartaáfalla kemur úr hópi sem ekki telst til hááhættu. Því er hópur í áhættu sem mælingar bera ekki kennsl á og það ýtir undir leit að nýjum leiðum sem bæta áhættumat. EndoPAT er tækni til mælingar á starfsgetu æðaþels. Skoðuð voru tengsl milli vanstarfandi æðaþels, mælt með EndoPAT, og niðurstaðna áhættumats Hjartaverndar.
    Efniviður og aðferðir:
    EndoPAT mælingar voru framkvæmdar á einstaklingum sem komu í áhættumat Hjartaverndar. EndoPAT metur getu æðaþels til að kalla fram æðavíkkun og blóðflæðisaukningu eftir blóðþurrð. Við mælingu var notast við nema sem settir voru á vísifingur beggja handa. Þeir meta þrýstingsbreytingar sem endurspegla sveiflur í blóðrúmmáli fingurgóma við hverja púlsbylgju. Hver mæling stóð yfir í 19 mínútur. Eftir 7 mínútna grunnástandsmælingu var 5 mínútna blóðþurrð framkölluð í víkjandi handlegg með þrýstingi á upphandlegg. 7 mínútna viðbragðstímabil var mælt í kjölfarið og borið saman við grunnástand.
    Niðurstöður:
    Helsta niðurstaða EndoPAT er RHI stuðull. RHI undir 1.67 er talið merki um skerta æðaþelsstarfsemi. Úrtak rannsóknar samanstóð af 102 einstaklingum. Af þeim voru tæp 15% með RHI gildi undir 1.67. RHI stuðull var að meðaltali 2.39. Meðaláhætta þátttakenda á greiningu kransæðasjúkdóms á næstu 10 árum var 5.19%. 25% höfðu áhættu yfir 10% og teljast til hááhættuhóps. Lægra RHI gildi hafði ekki marktæk tengsl við hærri áhættu. 1.5% af breytileika í áhættu mátti skýra með breytileika RHI. Áhætta var heldur ekki marktækt hærri hjá þeim sem mældust með RHI undir 1.67. Skoðaður var sérstaklega hááhættuhópur. Þessir einstaklingar voru hvorki með marktækt lægra RHI né marktækt líklegri til að hafa RHI undir 1.67. Hlutfallsleg áhætta, miðuð við jafnaldra af sama kyni, var ekki marktækt hærri hjá þeim sem voru með lægra RHI.
    Ályktanir:
    Sú niðurstaða að ekkert marktækt samband sé milli lágrar RHI niðurstöðu EndoPAT og hárrar áhættu gefur til kynna að EndoPAT mæling meti ekki sömu þætti og liggja að baki áhættureiknislíkaninu. Ef fullkomið öfugt samband væri á milli RHI og áhættu bætti EndoPAT mæling litlu við núverandi áhættumat. Skortur á samræmi ýtir undir spurningu þess efnis hvort EndoPAT mæli þætti sem ekki greinast í hefðbundnu áhættumati. Einnig vaknar sú spurning hvort EndoPAT mæling hafi forspárgildi um kransæðaáföll hjá heilbrigðu þýði umfram áhættureikni og geti bætt áhættumat.

Samþykkt: 
  • 16.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21536


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
bs_ritgerd_ylfarun.pdf1.08 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna