Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/21537
Áhrif prótónpumpuhemla á svörun krabbameinsfruma við doxorubicin og jónandi geislun
Nemandi: Sindri Baldursson
Leiðbeinendur: Helga M. Ögmundsdóttir, Garðar Mýrdal
Inngangur: pH og pH-halli eru mikilvægir þættir í fjölmörgum líffræðilegum ferlum frumunnar. Á undanförnum árum hefur athygli beinst í auknum mæli að breytingu á pH í krabbameinsfrumum, en pH í umfrymi þeirra hækkar á meðan pH í utanfrumuefni æxla lækkar. pH-halli yfir frumuhimnu krabbameinsfruma snýst því við borið saman við líkamsfrumur við eðlilegar aðstæður, og hefur það að mörgu leyti verndandi áhrif á krabbameinsfrumuna. Þessi breyting á pH greinir því krabbameinsfrumur frá eðlilegum líkamsfrumum og myndar þannig mögulegt skotmark fyrir krabbameinsmeðferð. Með því að snúa hallanum aftur inn í frumuna væri mögulega hægt að auka aðgengi lyfja í krabbameinsfrumurnar eða hvetja frumurnar í caspasa-miðlaða apoptosis. Fyrri rannsóknir á prótónskutlunni úsnínsýru hafa sýnt áhrif á meðferð með krabbameinslyfinu doxorubicin og jónandi geislun.
Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort lyf sem verka á sýrustig fruma hafi áhrif á svörun krabbameinsfruma við meðferð með krabbameinslyfinu doxorubicin og jónandi geislun.
Efni og aðferðir: Áhrif prótónpumpuhemilsins esomeprazole (ESOM) á frumulínurnar T47D og MCF7 úr brjóstakrabbameini, MCF10-A úr góðkynja brjóstmeini og Mel501 úr sortuæxli voru könnuð. Frumurnar voru meðhöndlaðar á 96-holu bökkum og lifun þeirra var síðan metin 72 klst seinna með crystal violet litun. Reiknað var IC50 gildi, þ.e. styrkur lyfs sem veldur 50% minnkun í lifun. Einnig voru framkvæmdar samvirknitilraunir þar sem ESOM var prófað með doxorubicin og jónandi geislun. Samvirkni milli ESOM og doxorubicins/jónandi geislunnar var metin með forritinu Compusyn og tjáð sem samverkunargildi, CI, þar sem gildi <1 er túlkað sem samvirkni (synergy) og gildi > 1 bendir til mótvirkni (antagonism).
Niðurstöður: ESOM hafði frumudrepandi áhrif á allar frumulínurnar, MCF10-A var næmust með IC50 gildi 56 µM, og 501Mel minnst næm með IC50 gildi 166 µM. Samverkunargildi fyrir ESOM með doxorubicini reyndust vera á bilinu 1,21-1,95 fyrir T47D, og 1,03-1,86 fyrir 501Mel. Samverkunargildi með jónandi geislun reyndist vera á bilinu 1,31-1,61 fyrir T47D.
Umræða og ályktanir: Fyrri rannsóknir með úsnínsýru og jónandi geislun sýndu samvirkni við doxorubicin en mótvirkni við jónandi geislun. Aftur á móti hafði ESOM mótverkandi áhrif bæði á svörun við doxorubicini og jónandi geislun. Möguleg skýring á mótvirkni við doxorubicin gæti falist í breytingum á dreifingu lyfsins í krabbameinsfrumunum en skýring á mótvirkni við jónandi geislun blasir ekki við á þessu stigi.
Esomeprazole og aðrir prótónpumpuhemlar eru í mikilli almennri notkun sem magalyf, og áhrif þeirra á meðferð við krabbameini eru lítt rannsókuð. Þessi og aðrar nýlegar rannsóknir sýna að sýrustigsbreytandi lyf hafa áhrif á svörun fruma við krabbameinslyfjum og jónandi geislun in vitro. Ef þau reynast einnig hafa áhrif in vivo gæti það haft verulega klíníska þýðingu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif PPI á meðferð krabbameinsfruma við doxorubicin og jónandi geislun.pdf | 562,75 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |